Skaut óvart úr riffli á lögreglustöð

Ítarlega var farið yfir atvikið og þjálfun lögregluþjóna í handlagningu …
Ítarlega var farið yfir atvikið og þjálfun lögregluþjóna í handlagningu skotvopna. mbl/Arnþór

Óhapp varð þegar lögregluþjónn skaut óvart úr riffli inni á lögreglustöð á höfuðborgarsvæðinu 16. apríl. Ítarlega var farið yfir atvikið og þjálfun lögregluþjóna í handlagningu skotvopna.

Rúv greindi fyrst frá málinu.

Þórir Ingvarsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að skotið hafi riðið af þegar lögregluþjónn var að tryggja skotvopn sem lagt var hald á í húsleit.

„Skotið hefur væntanlega gróið við boltann þannig að þegar lögregluþjónninn opnaði skotboltann þá sá hann ekki skotið en það var ekki í hlaupinu eins og þegar vopn er venjulega hlaðið. Þegar hann lokaði byssuhúsinu og lagði boltann aftur reið skotið af,“ segir Þórir en engan sakaði.

Þórir segir að um óhapp hafi verið að ræða og að atvikið hafi strax verið tilkynnt yfirmönnum lögreglustöðvarinnar og embættisins. Greinagerð var skrifuð og farið yfir málið. „Í kjölfarið var farið yfir öll þessi öryggisatriði þannig að fólk hefði líka betri skilning á skotopnum,“ segir Þórir og bætir við að blessunarlega leggi lögregluþjónar ekki hald á skotvopn daglega.

„Við lærum af þessum og reynum að fyrirbyggja að eitthvað þessu líkt gerist aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert