Skýrsla Hannesar um hrunið komin á netið

Hannes Hólmsteinn Gissurarson.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skýrsla Hann­esar Hólm­steins Giss­ur­ar­sonar, pró­fess­ors í stjórn­mála­fræði við Há­skóla Íslands, um er­lenda áhrifaþætti banka­hruns­ins er komin á netið. Hannes af­henti fjár­málaráðherra skýrsluna, sem unnin var samkvæmt samningi ráðuneytisins og félagsvísindastofnunnar HÍ, í gær eftir um fjög­ur ára vinnu. 

Hannes sagði í samtali við mbl.is í gær að helstu niður­stöður skýrsl­unn­ar væru þær að beit­ing Breta á hryðju­verka­lögum gegn Íslandi hafi verið bæði rudda­leg og óþörf, og að Bret­ar hafi beitt Íslend­inga mis­rétti með því að loka tveim­ur bresk­um bönk­um í eigu Íslend­inga, en bjarga öll­um öðrum bresk­um bönk­um.

Meðal annarra helstu niðurstaðna í skýrslunni, sem er á ensku og nefnist „The 2008 Icelandic Bank Collapse: Foreign Factors“, er að ekki hafa fundist nein merki um ólöglega fjármagnsflutninga bankanna frá Bretlandi til Íslands fyrir bankahrun, þótt breskir ráðherrar hafi haldið því fram í samtölum við íslenska ráðamenn.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson afhendir Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, skýrsluna.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson afhendir Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, skýrsluna. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Ekkert bendi þá til þess, að eignir íslensku bankanna hafi almennt verið lakari en eignir erlendra banka. Íslensku bankarnir hafi hins vegar gert margvísleg mistök, sem hafi verið til þess fallin að vekja andúð og vantraust á þeim erlendis.

Gögn sýni þá að Seðlabankinn hafi ítrekað varaði ráðamenn í kyrrþey við útþenslu bankanna og hafi lagt fram ýmsar tillögur til að takmarka áhættu þjóðarinnar, m.a. að Icesave-reikningar yrðu fluttir úr útbúi í dótturfélag. Þá hafi það verið Seðlabankinn, sem í bankahruninu beitti sér fyrir hugmyndinni um varnarvegg (ring-fencing) og takmörkun skuldbindinga ríkissjóðs og segir í skýrslunni að það hafi verið skynsamlegt hjá íslenskum stjórnvöldum að reisa slíkan varnarvegg og forðast að ríkissjóður tæki að sér skuldir einkaaðila.

Sú regla verið tekin upp í Evrópu síðar, ef til vill að fordæmi Íslendinga.

Í skýrslunni er þá enn fremur bent á að Bandaríkjamenn hafi neitað Íslandi um lausafjárfyrirgreiðslu, en hafi veitt ríkjum, sem aldrei hafi verið bandamenn þeirra, til dæmis Svíþjóð og Sviss, slíka fyrirgreiðslu. Er meginskýring þessa sögð líklega sú, að Ísland var ekki lengur hernaðarlega mikilvægt í augum Bandaríkjanna. „Gjaldeyrisskiptasamningur við Bandaríkin hefði hins vegar hugsanlega gert Seðlabankanum kleift að hafa stjórn á atburðarásinni og fara „sænsku leiðina“, sem sænski seðlabankinn markaði í fjármálakreppunni í Svíþjóð 1991–1992,“ að því er segir í yfirliti um helstu niðurstöður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert