Verður tekinn af lífi í kvöld

AFP

Til stendur að taka bandarískan karlmann, sem var sakfelldur fyrir að myrða konu og fela lík hennar í tunnu fullri af steinsteypu, af lífi í Texas-ríki í Bandaríkjunum í kvöld. Þetta er önnur aftakan af tveimur sem eru fyrirhugaðar í vikunni.

Maðurinn, Troy Clark sem í dag er 51 árs gamall, var dæmdur til dauða árið 1998 fyrir að myrða hina tvítugu Christina Muse sem var fyrrverandi herbergisfélagi hans. Clark, sem var eiturlyfjanotandi og -sali, var sakaður um að hafa lamið Muse og síðan drekkt henni í baðkari vegna þess að hann óttaðist að hún tilkynnti hann til lögreglunnar.

Rannsóknarlögreglumenn fundu líkið nokkrum mánuðum síðar og einnig lík karlmanns á sama stað. Clark hefur alltaf neitað sök samkvæmt frétt AFP og verjendur hans segja að sakfellingin hafi að of miklu leyti verið byggð á vitnisburði fyrrverandi kærustu hans sem hafi tekið ítrekuðum breytingum. 

Fyrst sagði kærastan að látni maðurinn hefði myrt Muse, síðan að hún sjálf hefði staðið að morðinu á henni og loks sagði hún að Clark hefði myrt Muse gegn því að fá sjálf vægari dóm. Til stendur að taka Clark af lífi í kvöld klukkan 23:00 að íslenskum tíma.

Hin aftakan er fyrirhuguð á morgun. Þá verður Daniel Acker tekinn af lífi fyrir morð á kærustu sinni. Hann hefur einnig haldið fram sakleysi sínu. Átta hafa verið teknir af lífi í Texas það sem af er þessu ári. Sextán hafa verið teknir af lífi í Bandaríkjunum í heild á árinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert