Vilja upplifun í stað veraldlegra hluta

James Lamb frá Trivandi á ráðstefnunni í dag.
James Lamb frá Trivandi á ráðstefnunni í dag. mbl.is/​Hari

Til þess að nýr þjóðarleikvangur standi undir sér er ekki nóg að bjóða þar eingöngu upp á knattspyrnuleiki. Nauðsynlegt er að víkka út sjóndeildarhringinn og nýta staðinn fyrir ýmis viðskiptatækifæri.

Þetta kom fram í máli James Lamb hjá fyrirtækinu Trivandi á ráðstefnu um þjóðarleikvang í dag. Lamb hefur starfað við skipulagningu stórra viðburða víða um heim, þar á meðal Ólympíuleikanna í London árið 2012 og HM í knattspyrnu. Einnig veitir hann ráðgjöf vegna innra skipulags íþróttaleikvanga.  Á meðal þeirra sem hafa notið aðstoðar hans eru knattspyrnusamböndin FIFA og UEFA, bardagasamtökin UFC og enska knattspyrnufélagið Brentford, sem er einmitt að byggja nýjan leikvang um þessar mundir.

Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. mbl.is/​Hari

Sveigjanleiki og sjálfbærni

Lamb talaði um mikilvægi innra skipulags til langs tíma hvað varðar Laugardalsvöll. Hann sagði fólk nú til dags vilja eyða meiri peningum en áður í ýmiss konar upplifun heldur en veraldlega hluti, samkvæmt rannsóknum sem gerðar hafa verið. Hann nefndi einnig að sveigjanleiki og sjálfbærni séu mikilvægir þættir þegar kemur að nýjum leikvangi og þar þurfi fleira að vera í boði en knattspyrnuleikir.

Hann sagði gott ef hægt væri að skipuleggja leikvanginn þannig að þeir sem koma þangað geti eytt þar meiri tíma. Nefndi hann sérstakt aðdáendasvæði sem dæmi og skemmtanir fyrir leiki. Í ljósi öflugs stuðningsmannaliðs íslenska landsliðsins sagði hann mikilvægt að aðkomuliðin fái það strax á tilfinninguna að þau eigi erfiðan leik í vændum. Til þess þurfi áhorfendastúkur að ná hringinn í kringum völlinn. Einnig nefndi hann að lækkun vallarins gæti myndað stemningu eins og í hringleikahúsi, líkt og hjá þýska félaginu Mainz, og að þak mætti vera yfir vellinum.

Lamb minntist einnig á tæknilegu hliðina og sagði að hægt væri að skoða kosti á borð við LED-auglýsingaspjöld og stafræna borða sem geta lýst upp leikvanginn á kvöldin.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ. mbl.is/​Hari

Þarf að skilja þjóðina og menninguna 

Guðmundur Jónsson, sem hefur starfað í Denver í 24 ár á vegum Populous, steig næstur í pontu. Populous er stórt arkitektafyrirtæki sem skipuleggur einnig stóra viðburði á borð við Ólympíuleikana, HM og Super Bowl en fyrirtækið hefur skipulagt síðustu 35 úrslitaleiki Ofurskálarinnar. Einnig hefur fyrirtækið átt þátt því að móta strangari reglur knattspyrnusambandanna FIFA og UEFA um hönnunarstaðla sem KSÍ þarf að fara eftir.

Guðmundur sagði Ísland vera öðruvísi en önnur lönd, Íslendingar hafi aðra sýn á lífið en aðrir og að veðrið sé öðruvísi en annars staðar. Mikilvægt sé að skilja þjóðina og menningu hennar vel þegar fara skal út í hönnun á þjóðarleikvangi. Hann sagði unga krakka mótast í gegnum fótboltann og að takmarkið fyrir þá eigi að vera að spila á Laugardalsvellinum.   

Tracey Crouch, íþróttamálaráðherra Bretlands, á ráðstefnunni.
Tracey Crouch, íþróttamálaráðherra Bretlands, á ráðstefnunni. mbl.is/​Hari

Nýttu rauða jarðveginn 

Tom Jones, sem starfar einnig hjá Populous, sagðist í starfi sínu mest hugsa um tengsl íþróttaleikvanga við borgir. Hann nefndi marga leikvanga til sögunnar sem fyrirtækið hefur hannað, þar á meðal Millenum-völlinn í Cardiff, sem er með færanlegu þaki og sætum nálægt vellinum, og Soccer City í Jóhannesarborg. Þar var rauður jarðvegur borgarinnar nýttur í klæðningu byggingarinnar þannig að hún passaði betur inn í umhverfið.

Einnig minntist hann á smærri leikvanga á borð við Kirklees Stadium í eigu enska félagsins Huddersfield, Reebok Stadium hjá Bolton og Stadium MK hjá Milton Keynes en á þeim tveimur síðastnefndu eru hótel tengd við leikvangana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert