Allir sýknaðir í Guðmundar- og Geirfinnsmáli

Frá Hæstarétti í dag.
Frá Hæstarétti í dag. mbl.is/​Hari

Allir dómfelldu í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu sem fengu mál sín endurupptekin fyrir Hæstarétti fyrr í mánuðinum voru í dag sýknaðir, 38 árum eftir að þeir voru sakfelldir af sama dómstóli, 44 árum eftir að meintir glæpir voru framdir.

Guðmund­ur og Geirfinn­ur Ein­ars­syn­ir hurfu báðir spor­laust árið 1974, ann­ar í janú­ar og hinn í nóv­em­ber. Ekkert hefur spurst til þeirra síðan. Sex ungmenni; Sæv­ar Ciesi­elski, Kristján Viðar Viðars­son­, Tryggvi Rún­ar Leifs­son, Guðjón Skarp­héðins­son, Al­bert Kla­hn Skafta­son og Erla Bolla­dótt­ir, voru öll sak­felld í Hæsta­rétti árið 1980 fyr­ir aðild að hvarfi þeirra en hún var þó tal­in mis­mik­il. Erla fékk ekki mál sitt endurupptekið en allir hinir dómfelldu hafa nú verið sýknaðir af því að hafa banað Guðmundi og Geirfinni.

Það var spennuþrungið andrúmsloftið í dómsalnum og mátti heyra saumnál detta þegar salnum hafði verið lokað, enda margir búnir að bíða lengi eftir þessum degi. Ættingjar og vinir dómfelldu voru viðstaddir þegar dómur var kveðinn upp, þar á meðal fjölskylda Tryggva Rúnars Leifssonar og Sævars Ciesielski. Erla Bolladóttir var einnig viðstödd, en líkt og áður sagði fékk hún mál sitt ekki endurupptekið. Þá var Gísli Guðjónsson réttarsálfræðingur líka í salnum, en það var meðal annars mat hans að játningar dómfelldu í málinu hefðu verið óáreiðanlegar.

Bæði ákæruvald og verjendur kröfðust sýknu í málinu og var málið allsérstakt fyrir þær sakir.

mbl.is/​Hari
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert