Allt lífið verið í skugga þessa máls

Klara segir fjölskylduna ætla að eiga góða stund saman og …
Klara segir fjölskylduna ætla að eiga góða stund saman og fagna sýknudóminum. mbl.is/​Hari

„Mér líður mjög vel, en það eru blendnar tilfinningar. Þetta er gleðidagur en jafnframt sorgardagur því hann er búinn að eyða 40 árum í þetta. Allt lífið hefur verið í skugga þessa máls hjá honum. Það er sorglegt,“ segir Klara Bragadóttir, kona Guðjóns Skarphéðinssonar, sem var viðstödd dómsuppkvaðningu í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu í Hæstarétti í dag.

Guðjón sjálfur treysti sér ekki til að vera viðstaddur, en Klara segir hann hafa sent hana í sinn stað. Guðjón var í dag sýknaður af því að hafa banað Geirfinni Einarssyni í nóvember árið 1974, ásamt Kristjáni Viðari Júlíussyni og Sævari Ciesielski. Guðjón hlaut 10 ára dóm fyrir aðild sína að málinu í Hæstarétti árið 1980, sama dómstóli og sýknar hann nú.

Klara segir þungu fargi af þeim létt með sýknudómnum í dag. „Ég hefði persónulega viljað að lýst hefði verið yfir sakleysi hans, en auðvitað er þetta mjög góður dagur.“ Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns, fór fram á að að hann yrði ekki bara sýkn saka heldur einnig lýstur saklaus. Dómurinn gerði það hins vegar ekki.

Fjölskyldan ætlar nú að njóta dagsins saman og fagna niðurstöðunni. „Guðjón er heima og dætur okkar þrjár eru hjá honum. Við ætlum bara að fá okkur kaffi saman. Systir hans og mágur eru hérna með mér. Nú ætlum við að fara heim til Guðjóns og gera okkur glaða stund.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert