Eðlilegt að greiða leið fyrir bætur

Jón fer hér yfir dóminn með Kristínu Önnu, dóttur Tryggva, …
Jón fer hér yfir dóminn með Kristínu Önnu, dóttur Tryggva, og Hilmari Leifssyni, bróður hans. Haraldur Jónasson/Hari

Jón Magnússon, lögmaður Tryggva Rúnars Leifssonar, viðurkennir að hann hafi verið með smá hnút í maganum þegar hann beið niðurstöðu dóms í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu í Hæstarétti í dag, þrátt fyrir að hann hafi gert ráð fyrir sýknu. Málið hafi verið umfangsmikið og tekið á að fara í gegnum gögnin. Hann útilokar ekki að farið verði fram á að ríkið greiði dómfelldu í málinu bætur.

„Þetta er mál sem tekur mann svolítið. Þetta gríðarlega mikið af gögnum og það er mikill tími sem fer í að fara í gegnum málið. Maður uppgötvar hvað mörgum einstaklingum var gert mikið rangt til. Hvað líf margra einstaklinga og fjölskyldna var eyðilagt. Það tekur svolítið á mann að verða vitni að því að íslenska réttarkerfið skyldi hafa geta gert svona gríðarleg mistök,“ segir hann í samtali við mbl.is, en allir dómfelldu í málinu voru í dag sýknaðir af því að hafa banað mönnunum tveimur.

Aðspurður hvort þau mistök sem gerð voru hafi verið leiðrétt með þessum dómi, svarar Jón því neitandi. Það tilfinningalega tjón sem málið hefur valdið verði að minnsta kosti aldrei bætt. „Mistökin sem snúa að fólkinu sem varð fyrir þessu verða aldrei leiðrétt. Nú eru tveir látnir og fjölskyldur þeirra; systkini, makar og venslafólk, hafa liðið fyrir þetta alla tíð. Það verður aldrei tekið til baka. Það sem mannkynið hefur hins vegar fundið út í gegnum tíðina, hvað á að gera í sambandi við það tilfinningalega tjón sem ekki verður bætt, er að borga hugsanlega bætur.“

Jón segir eðlilegt að ríkisvaldið greiði leið til að hægt …
Jón segir eðlilegt að ríkisvaldið greiði leið til að hægt sé að sækja bætur í málinu. mbl.is/Hari

Hann segir málið vissulega vera orðið gamalt, en 38 ár eru síðan sakfellt var í Hæstarétti. Það þurfi því að leggjast yfir með hvaða hætti verði hugsanlega hægt að sækja bætur.

„Það er næsta mál á dagskrá að skoða það. Mér finnst eðlilegt að ríkisvaldið greiði leið fyrir það að greiddar séu bætur þegar svona illa er farið að einstaklingum. Þetta er mikill sársauki, erfiðleikar og í rauninni pyntingar sem áttu sér stað hjá þessu fólki.“

Jón segir samspil margra þátta hafa leitt til þess að málið fór alla leið og endaði með sýknu í Hæstarétti í dag. Það sé í raun ekki hægt að þakka það einhverju einu atriði.

„Rannsóknir Gísla Guðjónssonar sálfræðings voru til dæmis gríðarlega þýðingamiklar. Það var töluvert lykilatriði því það opnaði augu margra fyrir því að játningar séu ekki endilega eitthvað sem hægt sé að byggja á. Það verður að skoða fleiri atriði. Sævar Ciesielski var að fá mörg prik fyrir það að reyna að sækja rétt sinn endalaust og vekja athygli á málinu. Hugsanlega væri málið ekki hér ef hann hefði ekki sýnt óbilandi dug til að gera það, þangað til á endanum hann gafst upp, því miður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert