Fatlaðir fái ekki réttindum framfylgt

Öryrkjadómur I markaði tímamót í aðferðum dómstóla við túlkun á …
Öryrkjadómur I markaði tímamót í aðferðum dómstóla við túlkun á jákvæðum skyldum ríkisins gagnvart fötluðum. mbl.is/Árni Torfason

Stefnubreyting hefur orðið í aðferðum dómstóla við túlkun á jákvæðum skyldum ríkisins gagnvart fötluðu fólki. Þetta er niðurstaða meistararitgerðar Sigurlaugar Soffíu Friðþjófsdóttur í lögfræði. „Fatlað fólk fær ekki réttindum sínum fullnægt fyrir dómstólum lengur,“ segir hún samtali við mbl.is.

Sigurlaug tók þátt í málþingi málefnanefndar Öryrkjabandalags Íslands um kjaramál sem fram fór á Grand hóteli í gær og kynnti niðurstöður ritgerðar sinnar.

Viðfangsefni Sigurlaugar í meistararitgerðinni var túlkun á jákvæðum skyldum ríkisins á sviði mannréttinda í íslenskri réttarframkvæmd með hliðsjón af réttarvernd fatlaðs fólks. „Ég gerði athugun á dómaraframkvæmd þar sem ég bar saman dóma frá tveimur mismunandi tímabilum,“ útskýrir Sigurlaug.

Fyrir og eftir Öryrkjadóm I

Annars vegar skoðaði Sigurlaug þrjá dóma frá árunum 1999 til 2000 sem bera það með sér að vera „jákvæðir hvað snertir jákvæðar skyldur ríkisins í garð fatlaðs fólks“. Sá fyrsti fjallar um blindan nemanda við Háskóla Íslands, en í því máli féllst Hæstiréttur á að Háskóli Íslands hefði ekki komið til móts við þarfir nemandans og í öðrum féllst Hæstiréttur á skyldu RÚV til að táknmálstúlka framboðsræður í sjónvarpi. Sá þriðji markaði tímamót í réttindabaráttu fatlaðs fólks og er jafnan kallaður Öryrkjadómur I, en í honum reyndi í fyrsta sinn á inntak 76. greinar stjórnarskrárinnar fyrir dómstólum. Þar var tekjutrygging örorkulífeyrisþega í sambúð eða hjúskap vegna tekna maka dæmd ólögmæt.

Sigurlaug Soffía Friðþjófsdóttir.
Sigurlaug Soffía Friðþjófsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Það stóð mikill styr um Öryrkjadóm I í samfélaginu. Talað var um að þarna hefðu dómstólar stigið inn á verksvið löggjafar, og  að þeir væru að taka sér annað hlutverk en stjórnskipunin gerir ráð fyrir,“ segir Sigurlaug.

Í meistararitgerð sinni skoðar Sigurlaug síðan nokkra dóma sem féllu í sambærilegum málum eftir að Öryrkjadómur I féll. „Niðurstaðan er sú að dómarar hafi algjörlega stigið til baka og telja þetta ekki lengur hlutverk dómstóla heldur hlutverk löggjafans. Löggjafanum er þannig nær í sjálfsvald sett að ákvarða um fjárhæð þeirrar aðstoðar sem öryrkjar eiga rétt á og sú fjárhæð sætir ekki endurskoðun dómstóla þar sem slík endurskoðun gengur að þeirra mati í berhögg við stjórnarskrá.“

Aðför að Hæstarétti, aukið málaálag og forskilningur

Eins og áður segir kemst Sigurlaug að þeirri niðurstöðu í meistararitgerðinni að stefnubreyting hafi orðið í þessum málum eftir Öryrkjadóm I. Í lok ritgerðarinnar veltir hún upp þremur mögulegum ástæðum fyrir sagðri stefnubreytingu:

„Í fyrsta lagi var sá styr sem stóð um Öryrkjadóm I í samfélaginu hálfgerð aðför að Hæstarétti. Fjölmargar fræðigreinar voru skrifaðar um þetta, sem og blaðagreinar þar sem ráðist var að Hæstarétti. Þar fór þáverandi forsætisráðherra fremstur í flokki,“ segir Sigurlaug. Í öðru lagi segir hún mögulegt að aukið málaálag á Hæstarétt hafi haft þær afleiðingar að dómarar hafi síður getað sinnt fordæmishlutverki sínu og taki því ekki virkan þátt við þróun og mótun réttarins.

„Í þriðja og síðasta lagi bendi ég á þá staðreynd að fimm hæstaréttardómarar sem dæmdu í Öryrkjarétti I létu af störfum árin eftir dóminn og fimm nýir komu inn. Ég fjalla svolítið um það í ritgerðinni að dómarar hafi ákveðinn forskilning sem mótast af félagslegum og menningarlegum reynsluheimi þeirra. Forskilningur þeirra fimm dómara sem létu af störfum eftir Öryrkjadómi I á efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum fatlaðs fólks var kannski annar en þeirra sem síðar komu.“

Sigurlaug telur þó vert að benda á að hið minnsta tveir héraðsdómar hafi fallið á undanförnum þremur árum sem bendi til þess að mögulega sé að verða einhver breyting til batnaðar. Þar á hún annars vegar við mál Snædísar Ránar Hjartardóttur, en Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi íslenska ríkið til að greiða henni rúma hálfa milljón í miskabætur vegna þess að Samskiptamiðstöð heyrnarlausra hafði synjað henni um endurgjaldslausa túlkaþjónustu. Hins vegar á hún við dóm sem féll í sumar þar sem Héraðsdómur Reykjavíkur felldi úr gildi synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn föður langveiks barns um tekjutengdar greiðslur til foreldra á vinnumarkaði.

„Þessar niðurstöður vekja von,“ segir Sigurlaug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert