Kristinn ritstjóri WikiLeaks

Kristinn Hrafnsson.
Kristinn Hrafnsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, hefur skipað blaðamanninn Kristin Hrafnsson sem ritstjóra WikiLeaks en Assange mun áfram starfa sem útgefandi. 

Þetta kemur fram í færslu sem WikiLeaks birti á Twitter.

Þar kemur fram, að Assange hafi undanfarið hálft ár ekki getað tjáð sig vegna óvenjulegra kringumstæðna, nema þá þegar lögmenn hafa heimsótt hann í sendiráð Ekvador í Lundúnum þar sem hann hefur dvalið undanfarin ár. 

Fram kemur að Kristinn sé íslenskur rannsóknarblaðamaður sem hlaut blaðamannaverðlaun ársins árið 2010 fyrir umfjöllun sína um þyrluárás í Bagdad sem unnin var í samstarfi við WikiLeaks. Síðar sama ár varð hann talsmaður samtakanna og hélt þeirri stöðu til ársins 2016. Síðan þá hefur hann unnið að ákveðnum lagalegum verkefnum fyrir WikiLeaks.

Kristinn segist í færslunni fordæma þá meðferð sem Assange hafi mátt þola sem leiði nú til þess að hann taki við nýju hlutiverki. Hann fagni aftur á móti að taka við þeirri ábyrgð að halda áfram að vinna á þeirri braut sem byggi á hugmyndafræði WikiLeaks.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert