„Klúðraði einföldustu stjórnsýsluatriðum“

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Velferðarráðuneytið klúðraði einföldustu stjórnsýsluatriðum í athugun sinni á þessum alvarlegu árekstrum innan stjórnkerfisins í einum viðkvæmasta málaflokki sem til er,“ sagði Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag þar sem hún gerði að umtalsefni þá niðurstöðu ráðuneytisins að Bragi Guðbrandsson hafi ekki farið út fyrir verksvið sitt með aðkomu sinni að barnaverndarmáli í Hafnarfirði sem var til umfjöllunar hjá yfirvöldum.

Velferðarráðuneytið komst upphaflega að þeirri niðurstöðu að Bragi hefði farið út fyrir verksvið sitt í málinu en óháð úttekt á málinu leiddi í ljós að ráðuneytið hefði ekki verið í aðstöðu til þess að fullyrða í þeim efnum þar sem öll gögn málsins hefðu ekki verið skoðuð. Brotið hefði verið meðal annars gegn rannsóknarreglu og andmælareglu í málsmeðferð ráðuneytisins. Endurskoðuð niðurstaða þess er að Bragi hafi ekki farið út fyrir verksvið sitt.

Fróðlegt að skoða vinnubrögð velferðarnefndar

Halldóra sagði málið allt eitt klúður velferðarráðuneytisins og spurði Ásmund Einar Daðason félagsmálaráðherra hvers vegna hann hefði ekki sagt sig frá málinu þegar það hafi verið til umfjöllunar innan ráðuneytisins. Sakaði Halldóra Ásmund um að hafa leynt velferðarnefnd Alþingis, sem hún sinnir formennsku í, þegar hann hafi verið spurður úr í málið á sínum tíma og kallaði eftir rannsókn stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis á málinu.

„Þessi úttekt var á sínum tíma unnin af tveimur óháðum lögfræðingum. Hvorki sá sem hér stendur né aðrir komu að því að stýra því með hvaða hætti það var gert. Það sama á við um þessa endurupptöku sem gerð var að beiðni Braga Guðbrandssonar og fallist á,“ sagði Ásmundur Einar. Sagðist hann alltaf tilbúinn að ræða þetta mál við nefndir þingsins. Fróðlegt væri einnig að skoða vinnubrögð velferðarnefndar í málinu frá upphafi til enda.

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is