Bleika slaufan afhjúpuð

Árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands, Bleika slaufan, fer fram í …
Árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands, Bleika slaufan, fer fram í ellefta sinn í ár. mbl.is/hari

Bleika slaufan, árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands, hófst í dag þegar bleika slaufan var afhjúpuð ásamt því að ný ljósmyndasýning var opnuð í Kringlunni.

Félagið hefur undanfarin 11 ár tileinkað októbermánuð baráttu gegn krabbameinum hjá konum. Í ár er lögð áhersla á þátttöku kvenna í skimun og mikilvægi þess að vinahópar hvetji sínar konur til að mæta í krabbameinsleit auk þess að styðja ef kona greinist með krabbamein.

Fundu til allt það bleika í borginni

Krabbameinsfélagið leitaði til Ástu Kristjánsdóttur ljósmyndara og vann hún að gerð ljósmyndasýningar ásamt Sóleyju Ástudóttur förðunarfræðingi og Önnu Clausen stílista. „Það er mikill kraftur í þessu málefni, sérstaklega þar sem þær hafa upplifað það sjálfar að missa einhvern úr krabbameini,“ segir Ásta í samtali við mbl.is og á hún þá við samstarfskonur sínar.

Saman fengu þær 12 konur til að sitja fyrir og byggir sýningin, sem nefnist BLEIK, á persónulegum sögum kvennanna sem greinst hafa með brjósta- eða leghálskrabbamein og farið í meðferð en einnig er fjallað um mikilvægi vinahópa í því ferli.   

Allar konurnar sem leitað var til voru til í verkefnið sem Ásta segir að sé aðdáunarvert. „Þær vildu allar vera með, það var rosa mikil jákvæðni og styrkur í þessum konum.“ Verkefnið var unnið í litlu stúdíói og voru konurnar 12 myndaðar á tveimur dögum. „Við fundum til allt bleikt í borginni og það var svo magnað andrúmsloft í kringum þetta allt saman. Við vorum sextán konur saman í pínulitlu stúdíói og klæddum okkur í allt bleikt með tónlistina í botni,“ segir Ásta.

12 konur sátu fyrir og byggir sýningin, sem nefnist BLEIK, …
12 konur sátu fyrir og byggir sýningin, sem nefnist BLEIK, á persónulegum sögum kvennanna sem greinst hafa með brjósta- eða leghálskrabbamein mbl.is/Hari

Grátið af gleði og sorg

Ferlið var afar tilfinningasamt og segir Ásta að hún hafi fyllst krafti við að vinna með konunum. „Við sem tókum þátt á bak við tjöldin vorum með tárin í augunum bæði af gleði og sorg. Stundum var erfitt að horfa upp á það sem þær hafa gengið í gegnum. Þær sögðu okkur allar sögurnar sína og þetta var magnað.“

Sýningin verður opin út október og eru sýningarstaðirnir fjórir: Kringlan í Reykjavík, Glerártorg á Akureyri, Krónan á Selfossi og Ráðhús Reykjanesbæjar. „Við vildum hafa þetta þar sem allir geta séð þetta til að minna konur á að fara í tékk. Því fyrr sem krabbameinið finnst því meiri líkur eru á að sigrast á því,“ segir Ásta.

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands, opnaði ljósmyndasýningu og afhjúpaði Bleiku …
Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands, opnaði ljósmyndasýningu og afhjúpaði Bleiku slaufuna 2018 í Kringlunni í dag. mbl.is/Hari

Bleika slaufan var svo afhjúpuð í Kringlunni síðdegis en ávallt hvílir mikil leynd yfir hönnun slaufunnar þar til hún er afhjúpuð í upphafi átaksins ár hvert. Hönnuður hennar að þessu sinni er Páll Sveinsson, gullsmíðameistari hjá Jóni og Óskari, en hann sigraði í samkeppni Krabbameinsfélagsins og Félags íslenskra gullsmiða um hönnun Bleiku slaufunnar. Bleika slaufan í ár táknar umhyggjuna og tárin sem geta fylgt því þegar einhver greinist með krabbamein.

Bleika slaufan er seld í fjölmörgum verslunum um allt land og í vefverslun Krabbameinsfélagsins. Hún kostar 2.500 krónur, en einnig er takmarkað upplag af silfurhálsmeni sem selt er hjá félaginu og völdum gullsmiðum um landið.

Söfnunarfé Bleiku slaufunnar verður varið til þeirrar fjölbreyttu starfsemi sem Krabbameinsfélagið stendur fyrir, með sérstakri áherslu á krabbamein hjá konum og hvatningu um að mæta í skimun fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert