Hjúkrunarfræðingur fær ekki bætur

Ásta Kristín Andrésdóttir eftir að hún hafði verið sýknuð af …
Ásta Kristín Andrésdóttir eftir að hún hafði verið sýknuð af ákæru um manndráp af gáleysi í Héraðsdómi Reykjavíkur 2015. mbl.is/Jón Pétur

Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í skaðabótamáli Ástu Kristínar Andrésdóttur hjúkrunarfræðings gegn íslenska ríkinu þar sem ríkið var sýknað af skaðabótakröfu hennar. Ásta Kristín fór fram á 4 milljónir króna í miskabætur.

Ásta Kristín var ákærð fyrir manndráp af gáleysi í kjölfar þess að sjúklingur á Landspítalanum sem var í hennar umsjá lést í byrjun október 2012. Héraðsdómur sýknaði Ástu Kristínu síðan af ákærunni í desember 2015. Höfðaði hún skaðabótamálið gegn ríkinu í framhaldinu. Héraðsdómur sýknaði ríkið af kröfunni 29. nóvember síðasta ári.

Skaðabótakrafan var byggð á því að starfsmenn ríkisins, einkum lögreglumenn sem komu að rannsókn málsins, hafi gert mistök við upphaf málsins sem hafi leitt til þess að Ásta Kristín tók á sig ábyrgð á andláti sjúklingsins að ósekju. Ekki var hins vegar fallist á að bótaskylda hefði skapast vegna framgöngu lögreglunnar.

Fram kemur þannig í dómi Landsréttar að þrátt fyrir forsendur þær sem fram komi í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í sakamálinu um að rannsókn þess hafi verið ábótavant yrði ekki talið í ljósi gagna málsins að lögreglan hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta hegðun eða að ákæruvaldið hafi ekki farið að lögum.

Þannig verði ekki talið að rannsókn lögreglunnar hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu Ástu Kristínar þannig að það leiddi til bótaskyldu ríkisins eða að farið hafi verið gegn ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrárinnar um réttláta málsmeðferð. Því sé öllum kröfum hennar hafnað.

Málskostnaður Ástu Kristínar greiðist úr ríkissjóði en um gjafsókn var að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert