Óþarfi að búa til tap úr sigrinum

Jón Steinar segir fullnaðarsigur hafa unnist í Hæstarétti í gær.
Jón Steinar segir fullnaðarsigur hafa unnist í Hæstarétti í gær. mbl.is/​Hari

„Það er alveg óþarfi að búa til eitthvert tap úr þessum sigri sem fólkið vann í gær. Þetta var sigur. Það var sýknað í málunum eins og kröfur stóðu til. Ég veit ekki af hverju þarf að snúa því upp í eitthvað annað,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður Kristjáns Viðars Júlíussonar, sem sýknaður var í gær í endurupptöku á Guðmundar- og Geirfinnsmálinu í Hæstarétti.

Jóni finnst óþarfi að tala, líkt og margir hafa gert, eins og sýknudómurinn hafi ekki dugað til að réttlætinu væri fullnægt. „Það er alveg fráleitt að mínu mati. Þessi dómur í gær var fullnaðarsigur fyrir sakborninga í þessu máli.“

Sérkennilegt að krefjast viðurkenningar á sakleysi

Hann segir það ekki vera hlutverk Hæstaréttar að fjalla efnislega um sakleysi sakborninga, líkt og Ragnar Aðalsteinsson, verjandi Guðjóns Skarphéðinssonar, hefði viljað sjá gert. Það sé ekki nein viðhlítandi stoð fyrir að krefjast þess. Ragnar sagði í samtali við mbl.is að hann hefði viljað fá afstöðu Hæstaréttar inn í forsendur dómsins. Þannig hefði verið hægt að senda skilaboð til dómstóla framtíðarinnar um að gæta sín. Fleiri hafa talað á þeim nótum.

Jón Steinar hefur aðra sýn á málið og segir slíkt ekki þekkjast. „Það er þannig í sakamálum að þá komast dómstólar bara að þeirri niðurstöðu hvort sök hefur verið sönnuð. Ef hún er ekki sönnuð þá eru menn sýknaðir af kröfum. Það er sérkennilegt að krefjast þess að í dómi í sakamáli felist einhvers konar viðurkenningardómur um það að þeir sem eru sakaðir hafi ekki drýgt glæpinn. Ég kannast ekki við neitt dæmi, að minnsta kosti ekki hjá íslenskum dómstólum, um að menn fái slíka niðurstöðu.“

Aðstandendur fyrrverandi sakborninga í málinu voru viðstaddir dómsuppkvaðninguna í gær.
Aðstandendur fyrrverandi sakborninga í málinu voru viðstaddir dómsuppkvaðninguna í gær. mbl.is/Hari

Hann segir þó alveg tilefni til að fjalla um hvað fór úrskeiðis þegar sakfellt var í málinu á sínum tíma. Það verði hins vegar ekki gert fyrir dómi. „Menn eiga vonandi eftir að fjalla heilmikið um þetta mál, hvað fór þar úrskeiðis og hvað þurfi að betrumbæta. En það er allt gert á þeim forsendum að sakfellingarnar voru rangar, eins og nú er búið að fá viðurkennt. Auðvitað þarf þjóðin að átta sig á því til að freista þess að tryggja að svona gerist ekki aftur. Það er kannski aldrei hægt, en reyna að minnsta kosti að draga lærdóm af þessu í þá veru.“

Aldrei dæma eftir vindum sem blása í samfélaginu

Jón Steinar segist hafa haldið uppi umræðum um það lengi hvernig koma megi í veg fyrir að svona lagað gerist.

„Dómstólar í landinu eiga að einbeita sér að því, þegar verið er að dæma í refsimálum, að dæma bara eftir settum lögum og fara eftir öllum lagareglum sem um það gilda. Að sakborningar teljist saklausir þar til sekt sannast, að sakborningar hljóti mannúðlega meðferð og fái að færa fram varnir sínar skilmálalaust og fleira. Ef dómstólar eru einbeittir í að dæma aldrei eftir einhverjum vindum sem þeir telja að blási í samfélaginu, eins og þarna var gert, þá minnka líkurnar stórlega á að svona slys verði aftur.“ Jón Steinar segir það þýðingarmesta lærdóminn sem draga megi af málinu.

„Ég hef verið að tala um það upp á síðkastið að það hafi verið kveðnir upp dómar í þágu meints almenningsálits eftir hrun, án þess að lagaskilyrði hafi verið uppfyllt. Menn ættu núna að færast einu skrefi nær því að skilja að það gengur aldrei að dómsvaldið starfi eftir öðru en ströngum lagalegum mælikvarða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert