Skipa starfshóp vegna hugsanlegra bóta

Aðstandendur fyrrum sakborninga voru viðstaddir dómsuppkvaðninguna í gær.
Aðstandendur fyrrum sakborninga voru viðstaddir dómsuppkvaðninguna í gær. mbl.is/​Hari

Ákveðið var á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun að skipa starfshóp þriggja ráðuneyta til að fara yfir það sem gerist nú í framhaldi af sýknudómi í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu sem kveðinn var upp í Hæstarétti í gær.

Meðal þess sem verður skoðað er hvort greiddar verði einhvers konar bætur vegna málsins. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is. Hópurinn verður skipaður eftir helgi og mun setja sig í samband við fyrrum sakborninga í málinu og aðstandendur þeirra.

„Mér og okkur í ríkisstjórninni fannst mikilvægt að stjórnvöld ættu frumkvæði að því að setja þetta mál af stað og skipa nefnd með fulltrúum forsætis-, fjármála og dómsmálaráðuneytis til að fara yfir það.“

Katrín segir það koma í ljós í næstu viku hverjir munu skipa starfshópinn og hvaða tímaramma honum verður settur. „Auðvitað ætlumst við til þess að þetta gangi tiltölulega greitt fyrir sig.“

Hún segir algjöran einhug hafa verið hjá ríkisstjórninni um málið. „Þetta mál er einstakt að mörgu leyti og örugglega umdeildasta sakamál Íslandssögunnar. Það var algjör einhugur um þessi viðbrögð,“ segir Katrín.

Fyrr í dag bað hún, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, fyrrum sakborninga, aðstandendur þeirra og aðra sem hafa átt um sárt að binda vegna málsins, afsökunar á því því ranglæti sem þeir máttu þola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert