Tilgangurinn að styrkja stjórnsýsluna

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ráðherra landbúnaðarmála, Kristján Þór Júlíusson, segir að ákvörðun um að hætta við ráðningu í embætti skrifstofustjóra matvæla og landbúnaðar í atvinnuvegaráðuneytinu sé liður í því að styrkja stjórnsýslu landbúnaðarmála innan þess. Þeim sem sóttu um embættið var tilkynnt í gær að hætta hefði verið við ráðningu í það en þess í stað yrði skrifstofan færð undir skrifstofustjóra skrifstofu alþjóðamála. Kristján segir að með þessu opnist möguleiki á að ráða fleira sérfræðinga til þess að sinna landbúnaðarmálum í ráðuneytinu.

„Ég hef lengi haft áhyggjur af stöðu landbúnaðarskrifstofunnar inni í ráðuneytinu og gengið með það í dálítinn tíma með hvaða hætti ég gæti styrkt hana. Síðan dróst vinna við þetta ráðningarferli og á meðan þroskuðust þessar hugmyndir mínar með hvaða hætti væri rétt að gera þetta. Það sem ég er að gera núna er að ég er að styrkja skrifstofuna með þeim hætti að leggja af eitt skrifstofustarf og færa skrifstofustjóra innan ráðuneytisins til í starfi. Ég geri ráð fyrir að við munum þá ráða einn til tvo starfsmenn í staðinn, sérfræðinga, inn á landbúnaðarskrifstofuna í staðinn til viðbótar við það góða fólk sem þar er fyrir ásamt því að færa til verkefni og mannskap inni í ráðuneytinu til enn frekari styrkingar.“

Formaður Bændasamtakanna, Sindri Sigurgeirsson, hefur lýst vonbrigðum með ákvörðunina um að ráða ekki í embættið og ennfremur áhyggjum af stöðu landbúnaðarmála innan atvinnuvegaráðuneytisins. Kristján Þór segir tilganginn með þessum breytingum einmitt vera þann að styrkja stjórnsýslu þeirra mála í ráðuneytinu eins og kallað hafi verið eftir.

„Við erum með þessu að styrkja stjórnsýslu landbúnaðarmála í ráðuneytinu. Það hefur verið mikið ákall eftir því. Ég hef séð alls konar óskir og hugleiðingar í þá veru. Við erum að bregðast við því með þessum hætti, með því að breyta innra skipulagi ráðuneytisins og gerum ráð fyrir því til viðbótar að ráða inn fleiri sérfræðinga og ég held að það hljóti að vera fagnaðarefni fyrir þá sem hafa haft áhyggjur í þessum efnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert