Hælisleitandi kjörinn áheyrnarfulltrúi hjá Pírötum

Steinar Guðlaugsson, Pétur Óli Þorvaldsson og Reber Abdi Muhamed.
Steinar Guðlaugsson, Pétur Óli Þorvaldsson og Reber Abdi Muhamed. Ljósmyndari/Robert Douglas

Hælisleitandinn Reber Abdi Muhamed var í dag kjörinn áheyrnarfulltrúi í framkvæmdaráð Pírata, en aðalfundur flokksins fer nú fram á Selfossi.

Á fundinum eru tveir fundargestir valdir í framkvæmdaráðið með slembivali og var Muhamed, sem er Kúrdi og með stöðu hælisleitanda, fyrst valinn með þeirri aðferð. Vegna stöðu sinnar getur hann þó samkvæmt landslögum ekki tekið sæti í framkvæmdaráðinu, en til þess þarf meðal annars að hafa kennitölu.

Í tilkynningu frá Pírötum kemur fram að Muhamed hafi undanfarna mánuði verið virkur í starfi Pírata og lýstu margir fundargestir yfir óánægju með að Muhamed gæti ekki tekið sæti. Var þá borin upp sú tillaga að hann tæki sæti áheyrnafulltrúa og var tillagan samþykkt. Muhamed kom til Íslands í vor ásamt bróður sínum, Shivan Abdi Mohammed, sem einnig hefur sótt um hæli hér á landi.

Þeir Steinar Guðlaugsson og Pétur Óli Þorvaldsson voru því næst valdir í framkvæmdaráðið með slembivali. Þá stendur enn yfir kosning í ráðið og lýkur henni klukkan 17:30 í dag. Pétur Óli var í framboði en dettur út af framboðslistanum þar sem hann var slembivalinn. Eftir standa sextán í framboði en fjórir verða kjörnir.

mbl.is

Bloggað um fréttina