Ákært í skáksambandsmálinu

Sigurður Kristinsson í Héraðsdómi Reykjaness fyrr á þessu ári við …
Sigurður Kristinsson í Héraðsdómi Reykjaness fyrr á þessu ári við þingfestingu skattamáls SS húsa. mbl.is/Hari

Embætti héraðssaksóknara hefur ákært þrjá karlmenn í skáksambandsmálinu svokallaða. Meðal þeirra sem eru ákærðir er Sigurður Kristinsson, en auk hans eru ákærðir tveir menn á þrítugsaldri, annars 21 árs og hinn 24 ára. Málið verður þingfest á föstudaginn í Héraðsdómi Reykjavíkur, en Rúv greindi fyrst frá ákærunni.

Málið tengist meintum innflutningi á rúmlega fimm kílóum af amfetamíni. Kom málið upp í janúar með umfangsmiklum aðgerðum lögreglunnar hér á landi. Var Sig­urður þá stadd­ur á Spáni, en kom hingað til lands í fram­hald­inu og var hand­tek­inn. Hann var í upp­hafi úr­sk­urðaður í gæslu­v­arðhald vegna máls­ins, en var svo ítrekað úrskurðaður í farbann, núna síðast til 4. október. Hefur hann sætt farbanni frá 20. apríl.

Sig­urður er fyrrverandi eig­inmaður Sunnu El­viru sem sætti far­banni um nokk­urra vikna skeið, eft­ir að hafa lam­ast við fall á heim­ili sínu á Spáni.

Annað dómsmál var höfðað gegn Sigurði og fleirum í tengslum við meiri háttar skattalagabrot verktakafyrirtækisins SS húsa, en Sigurður var eigandi þess félags. Gekkst hann við að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti. Hann neitaði hins vegar sök í öðrum hluta ákærunnar í því máli þar sem honum var gerð að sök skil á röng­um virðis­auka­skatt­skýrsl­um þar sem innskatt­ur af þjón­ustu­kaup­um var of­fram­tal­inn á grund­velli til­hæfu­lausra sölu­reikn­inga og um leið van­fram­tal­inn virðis­auka­skatt.

mbl.is