Ásbjörn hlaut silfur á EuroSkills

Hér sést Ásbjörn Eðvaldsson taka við silfurverðlaununum.
Hér sést Ásbjörn Eðvaldsson taka við silfurverðlaununum.

Ásbjörn Eðvaldsson hlaut silfurverðlaun í Evrópukeppni í iðn- og verkgreinum, EuroSkills, sem fram fór í Búdapest í síðustu viku. Ásbjörn keppti í rafeindavirkjun og hlaut 710 stig en sex keppendur tóku þátt í greininni.

Átta keppendur frá Íslandi tóku þátt í EuroSkills, sem fór fram dagana 26.-28. september og stóð íslenski hópurinn sig vel, samkvæmt fréttatilkynningu en hann fékk þrjár viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur eða „medal of excellence“ auk silfurverðlauna.

Haraldur Örn Arnarson prentsmiður hlaut 704 stig og varð í 6. sæti af 14 keppendum, Jón Þór Einarsson rafvirki hlaut 700 stig og varð í 8. sæti af 15 keppendum og Kristinn Gísli Jónsson matreiðslumaður hlaut einnig 700 stig og varð í 10.-12. sæti af 23 keppendum. Auk þess kepptu Finnur Ingi Harrýsson í málmsuðu, Sigurður Borgar Ólafsson í framreiðslu, Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir í bakstri og Þröstur Kárason í trésmíði.

Íslenski hópurinn á Euroskills fangaði vel að lokinn keppninni. Frá …
Íslenski hópurinn á Euroskills fangaði vel að lokinn keppninni. Frá vinstri eru Þórey, Ásbjörn, Sigurður Borgar, Svanborg liðsstjóri, Þröstur, Kristinn, Haraldur Örn, Jón Þór og Finnur Ingi.

Um er að ræða besta árangur Íslands á Evrópumótinu til þessa. Keppendurnir voru valdir af hverri grein til að keppa fyrir Íslands hönd og hafa verið undir handleiðslu þjálfara frá því í vor, segir í tilkynningu.

Verkiðn – Skills Iceland er aðili að World Skills Europe sem heldur EuroSkills og hefur verið þátttakandi á vettvangi samtakanna og systursamtakanna WorldSkills frá árinu 2007.

„Ég er mjög ánægður með annað sætið í keppninni. Ég bjóst fyrirfram ekki við að enda svona ofarlega. Sex vorum rafeindavirkjar sem kepptum í flokknum. Rafeindavirki frá Slóvakíu sigraði í keppninni en ég er mjög sáttur að koma heim með silfrið," segir Ásbjörn.

 „Við vorum látnir setja saman rafrás. Þá þurftum við að teikna rafrásina í tölvu í þrívídd. Síðan þurftum við að forrita tölvu sem stýrir þessari rafrás og fleiri rafrásum. Verkefnið í ár var rafmagnsbíll þannig að við hönnuðum mótorstýringu í hann. Við þurftum að forrita rúðuþurrkur og margt fleira í mælaborðið m.a. að tölurnar í mælaborðinu eltu hraðann á dekkjunum. Það má segja að við höfum eiginlega verið að búa til lítinn. rafmagnsbílahermi. Dómarar tóku tillit til hugmyndina á bak við stúringuna hjá hverjum og einum og hvernig keppendur framkvæmdu þessa lausn m.a. samkvæmt evróskum stöðlum. Svo skipti líka máli hvernig forritið var, hversu flott það var í útliti og hvernig virknin var," segir hann.

Ásbjörn segist ætla að klára námið í Háskólanum í Reykjavík en framtíðarplön séu ekki ráðin að öðru leyti. „Ég stefni væntanlega á að vinna í þessum geira. Mér finnst rafeindatæknin mjög skemmtileg. Hún er krefjandi og það er sífellt eitthvað nýtt sem maður er að fást við daglega. Það koma alltaf nýjar áskoranir daglega," segir Ásbjörn ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert