„Teikningin er mjög persónulegt listform“

Elín Elísabet Einarsdóttir.
Elín Elísabet Einarsdóttir. mbl.is/Valgarður Gíslason

Íslenskan virðist ekki eiga til orð sem nær að lýsa nægilega vel því sem Elín Elísabet Einarsdóttir starfar við. Á ensku er til orðið „illustrator“ og er kannski best lýst þannig að það lendir á mörkum þess að vera listamaður og myndasöguhöfundur. Sjálf kýs Elín að nota einfaldlega titilinn „teiknari“ en störf hennar spanna allt frá bráðskemmtilegum myndum sem hún birtir í Reykjavik Grapevine og á Facebook yfir í að nota lit og blýant til að miðla daglegu lífi kvenna suður í Senegal þar sem hún dvaldi á sínum tíma um mánaðar skeið. 

Elín er 25 ára gömul og útskrifaðist fyrir tveimur árum úr teiknideild Myndlistaskólans í Reykjavík. Hún segir að þökk sé þessari nýju deild fari teiknarastéttinn hér á landi ört stækkandi: „Bæði dælir skólinn út í kringum fimmtán nýjum teiknurum ár hvert en svo er eftirspurnin eftir hæfileikum þeirra líka að aukast og t.d. orðið vinsælt að fá teiknara á staðinn til að skrásetja mikilvæga viðburði á borð við ráðstefnur, stórafmæli og brúðkaup.“

Þrívítt listform

Það má skipta verkum Elínar í nokkra flokka. Annars vegar eru myndasögurnar sem hún byggir að hluta á eigin lífi, þá eru skreytingar fyrir blöð, bækur, plötuumslög og kort, teikningar af fólki og samfélagi og loks málverkaserían Pink Ladies sem Elín vonast til að sýna síðar í vetur. Teikningarnar má sjá bæði á Facebook.com/elinelisabete og á www.elinelisabet.com.

Hún segir teikningu vera listform sem býður upp á allt aðra möguleika en t.d. ljósmyndun eða hefðbundið málverk. Teiknarinn fangar umhverfið með öðrum hætti en málarinn og getur leyft sér meira en ljósmyndarinn við samsetningu myndarinnar. „Teikningin er mjög persónulegt listform og teiknarinn getur dregið fram vinkla á myndefninu sem enginn annar sér. Er kannski hægt að segja að teikningin sé þrívíðari en t.d. ljósmynd og teiknarinn getur dregið úr umhverfi sínu það sem honum finnst áhugaverðast.“

Sjónarhorn kvenna

Greinilegt er að Elínu þykir áhugavert að fanga hversdagsleikann og oftar en ekki sýna verkin hennar heiminn frá sjónarhorni kvenna. Hún segir að jafnt í Senegal sem á Borgarfirði eystra hafi hún fundið hvað fólki þykir vænt um að einhver sé reiðubúinn að leggja tíma og orku í að sýna hvernig lífi það lifir.

Að gera konur sýnilegri í teikningum er síðan verðugt verkefni út af fyrir sig enda hefur hinn teiknaði heimur hingað til verið mjög karllægur. Þarf ekki nema að skoða myndasögubókmenntirnar til að sjá að þar hallar á konur og þarf Jane að bíða aðgerðalaus og jafnvel bjargarlaus á meðan Tarsan lendir í öllum ævintýrunum.

„Allir eiga rétt á að geta séð sig sjálfa í þeirri menningu sem við neytum, bæði í teikningum, myndasögum og annars staðar,“ segir Elín og minnir á að sjálfsmynd og heimsmynd yngsta fólksins ráðist ekki síst af því sem það les í barnabókmenntum og myndasögum. „Litlar stelpur eiga líka að fá að sjá myndasögukonur sem eru ekki bara stilltar og prúðar á bak við tjöldin.“

Bleiku konurnar, Pink Ladies, er verkefni sem leit dagsins ljós í fyrra þegar Elín tók sig til og fór á málaravinnustofu vestanhafs. Þar fer feminísk heimssýn höfundarins ekki milli mála enda bleiku konurnar kröftugar, risavaxnar og virðast óstöðvandi: „Þetta eru persónur sem taka mikið pláss og njóta þess.“

Viðtalið við Elínu birtist á menningarsíðum Morgunblaðsins 10 september og er hægt að lesa það í fullri lengd þar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »