Ráðherra gaf fyrirmæli andstæð lögum

Sjúkratryggingar Íslands.
Sjúkratryggingar Íslands.

Dögg Pálsdóttir lögmaður segir þá staðreynd að heilbrigðisráðherra gaf undirstofnun sinni fyrirmæli um verklag sem gekk gegn lögum athyglisverða. Þetta kemur fram í umfjöllun Daggar um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem felld var úr gildi ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja sérfræðilækni um aðild að rammasamningi. 

Alma Gunn­ars­dótt­ir höfðaði málið gegn íslenska ríkinu vegna ákvörðunar Sjúkra­trygg­inga Íslands um að synja henni um aðild að ramma­samn­ingi. Var ákvörðun Sjúkra­trygg­inga felld úr gildi og rík­inu gert að greiða Ölmu 1,8 millj­ón­ir í máls­kostnað.

„Það sem er athyglisvert í þessu máli er sú staðreynd að heilbrigðisráðherra gaf undirstofnun sinni fyrirmæli um verklag sem dómstóll hefur metið ólögmætt þar sem það fór í bága við gildandi samning. 

Með fyrirmælum af þessu tagi setur heilbrigðisráðherra undirstofnun sína og stjórnendur hennar í óþolandi stöðu. Enda hafði forstjóri SÍ alllöngu áður en þessi dómur gekk tjáð sig í fjölmiðlum um þessi fyrirmæli og gagnrýnt harðlega að stofnunin mætti ekki fylgja verklagi samstarfssamningsins um umsóknir nýrra sérgreinalækna inn á samninginn. Í máli forstjórans kom skýrt fram að SÍ teldi fyrirmæli ráðherra ekki standast samninginn. Þessi skoðun forstjórans hefur nú verið staðfest í áður tilvitnuðum dómi.

Það er sérstakt ánægjuefni hversu þunga áherslu dómurinn leggur á rétt og hagsmuni hinna sjúkratryggðu. Það virðist oft gleymast í umræðunni um sjálfstæða starfsemi sérgreinalækna að sjúkratryggðir eiga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar rétt á þjónustu og meðferð hjá sérgreinalæknum sem samið hefur verið við enda er þjónusta þeirra mikilvægur hlekkur sérhæfðu heilbrigðisþjónustunnar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu.

Niðurstaða dómsins kemur ekki á óvart í ljósi skýrra ákvæða fyrrgreindra samninga um það verklag sem gilda á varðandi nýja sérgreinalækna inn á rammasamninginn. Enda liggur nú fyrir að heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að una dómnum. Næsta verkefni SÍ er því að taka til efnislegrar afgreiðslu umsóknir þeirra sérgreinalækna sem fengið hafa synjun frá byrjun árs 2016.

Sérstakt skoðunarefni verður hvort sjúkratryggðir, sem farið hafa til sérgreinalækna sem fengu synjun, eigi mögulega endurkröfu á SÍ vegna kostnaðar síns við þær heimsóknir,“ segir Dögg í lögfræðipistli í Læknablaðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert