Ráðherra ræðir göng um Reynisfjall

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Langt er orðið síðan göng um Reynisfjall voru fyrst nefnd á nafn. Þetta minnir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á í færslu á Facebook í kvöld.

Sigurður Ingi sat í kvöld opinn fund um samgöngumál í Víkurskóla í Vík og segir hann í færslu sinni fundinn hafa verið fjölmennan.

„Umferðaraukningin síðustu árin um Reynisfjall og Mýrdal er ævintýraleg og þróun þorpsins í Vik er í spennutreyju. Öryggi í umferðinni þarf að tryggja fyrir ferðamenn og íbúa. Við þurfum að taka ákvörðun um lagningu á nýrri leið sem gæti verið framkvæmd líkt og Hvalfjarðargöng,“ segir í færslunni.

Sagði ráðherra í samtali við Morgunblaðið fyrir helgi að hann hefði frá upphafi verið stuðningsmaður þess að göng yrðu lögð um Reynisfjall.

Í yfirliti um innihald samgönguáætlunar kom fram að hringvegur um Mýrdal og jarðgöng um Reynisfjall væru sett á 2.-3. tímabil áætlunarinnar. Reiknað er með 5,3 milljörðum króna til verksins. Þá sagði að leitað yrði leiða til að fjármagna verkefnið í samstarfi við einkaaðila.

 „Ég held að þetta muni skipta máli. Þetta yrði stytting á tíma, sparnaður í akstri, minni útblástur. Það er jákvætt að stytta hringveginn og fara með umferðina úr þorpinu. Og ekki síður að komast fram hjá fjallvegi þar sem hætta stafar af gatnabrúninni,“ sagði ráðherra í samtali við Morgunblaðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert