Engar fregnir af Íslendingum í Indónesíu

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins veit ekki til þess að Íslendingar hafi verið …
Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins veit ekki til þess að Íslendingar hafi verið á Sulawesi-eyjunni þegar stór jarðskjálfti reið þar yfir á föstudag. AFP

Borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins hafa ekki borist fyrirspurnir vegna náttúruhamfaranna á indó­nes­ísku eyj­unni Sulawesi. Samkvæmt upplýsingum frá Sveini H. Guðmarssyni, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, hefur enginn óskað eftir aðstoð, hvorki fólk á svæðinu né ættingjar þeirra sem kunna að vera þar.

Jarðskjálft­inn sem mæld­ist 7,5 stig varð á indónesísku eyjunni Sulawesi á föstudag. Flóðbylgj­a fylgdi í kjöl­farið og hefur tala látinna hækkað hratt. Staðfest er að 1.234 hafi látið lífið í skjálftanum.

Sulawesi tilheyrir Minahasa-skaganum og liggur norðarlega ef miðað er við eyjaklasa Indónesíu. Eyjan er í töluverðri fjarlægð frá helstu viðkomustöðum ferðamanna og liggur hún til að mynda um 1.665 kílómetra norður af Balí. 

Tíðar jarðhræringar hafa verið í Indónesíu upp á síðkastið. Jarðskjálfti sem mældist 6,9 stig varð á eyjunni Lombok, skammt frá Balí, í ágúst þar sem yfir 400 manns létu lífið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert