Fleiri voru ósáttir við Barnaverndarstofu

Ljósmynd/Velferðarráðuneytið

Kvartanir bárust velferðarráðuneytinu vegna framgöngu Braga Guðbrandssonar, þáverandi forstjóra Barnaverndarstofu, vegna fleiri mála en barnaverndarmáls í Hafnarfirði, en velferðarráðuneytið komst nýverið að niðurstöðu um að Bragi hefði ekki farið út fyrir starfssvið sitt vegna þess máls í kjölfar kvartana barnaverndarnefnda á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta kemur fram í minnisblaði velferðarráðuneytisins til Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra frá í janúar á þessu ári. Minnisblaðið var gert opinbert í kjölfar þess að Ríkisútvarpið vísaði neitun ráðuneytisins um að afhenda það til úrskurðarnefndar upplýsingamála sem komst að þeirri niðurstöðu að afhenda ætti blaðið.

Fram kemur þannig í minnisblaðinu að meðal þeirra sem gert hafa alvarlegar athugasemdir við framgöngu Barnaverndarstofu í fjölmiðlum um barnaverndarmál væru fagdeild félagsráðgjafa í barnavernd, barnaverndarnefnd Kópavogs, félagsmálanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga sem og stjórn sambandsins sem tekið hafi undir athugasemdir nefndarinnar.

Einnig er nefndur til sögunnar ónafngreindur fyrrverandi félagsmálastjóri sem hafi greint frá erfiðum og að hennar mati ofbeldisfullum samskiptum við forstjóra og starfsfólk Barnaverndarstofu og frá fyrrverandi starfsmanni meðferðarheimilisins Stuðla sem hafi kvartað yfir yfirstjórn stofunnar, skorti á gegnsæi og verklagsreglum og brotum á jafnræði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert