Sakar borgarstjóra um „hrútskýringar“

Hildur segir hrútskýringar borgarstjóra hafa verið ósmekklegar og óþarfar.
Hildur segir hrútskýringar borgarstjóra hafa verið ósmekklegar og óþarfar. mbl.is/Eggert

Tillögu Hildar Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um jöfn fjárframlög með börnum í leik- og grunnskólum, óháð rekstrarformi, var vísað til borgarráðs á fundi borgarstjórnar í dag. Í færslu á Facebook þar sem Hildur greinir frá málinu segir hún Dag B. Eggertsson borgarstjóra hafa gerst sekan um „hrútskýringar“.

Í færslunni segir Hildur jafnframt að tillögunni hafi verið ætlað að koma í veg fyrir innheimtu skólagjalda og tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til að sækja ólíka skóla borgarinnar. Borgarstjórn hafi hins vegar vikið sér undan því að taka afstöðu til tillagnanna með því að vísa þeim til borgarráðs.

„Sérstaka athygli vakti að Viðreisn treysti sér ekki til að styðja tillöguna, þrátt fyrir fögur fyrirheit í kosningabaráttu. Ég fæ ekki lengur séð hver munurinn er á Samfylkingu og Viðreisn?“ spyr Hildur á Facebook.

Tillaga unnin í nánu samstarfi við skólastjórnendur

Benti hún á að meirihlutaflokkarnir hefðu lýst sérstökum áhyggjum af kostnaði. „Þeim virðist þykja rétt að mismuna börnum í sparnaðarskyni. Það væri óskandi að borgarstjóri horfði með sama hætti í hverja krónu þegar hver framkvæmdin á fætur annarri fer margfalt fram úr áætlunum á hans vakt. Það mætti eflaust fjármagna tillöguna með einum Bragga. Til dæmis,“ segir hún og vísar þar til framkvæmda við endurbætur á gömlum bragga í Nauthólsvík sem hefur farið 257 milljónir fram úr kostnaðaráætlun.

„Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, taldi svo ástæðu til að hrútskýra fyrir mér í löngu máli hvernig fjárframlög til grunnskóla og leikskóla í borginni eru reiknuð. Hann sagði tillöguna vanhugsaða og byggða á þekkingarleysi. Er þetta ekki dæmigert?“

Segir Hildur tillöguna raunar hafa verið óvenjuítarlega og vel ígrundaða. Hún hafi verið unnin í nánu samstarfi við skólastjórnendur sjálfstæðra grunn- og leikskóla og hagsmunasamtök sjálfstæðra skóla.

„Að baki þessum skólum og samtökum standa vel menntaðar, hæfileikaríkar og eldklárar konur sem hafa mikla innsýn í starf og rekstur sjálfstæðra skóla. Hrútskýringar borgarstjóra voru því ekki eingöngu ósmekklegar, heldur fullkomlega óþarfar.“

Ekki um tvær tölur að ræða

Dagur sagði umræðuna bera þess merki að hún væri á ákveðnu byrjunarstigi og tæki ekki mið af veruleikanum. Hver fjárframlög væru til mismunandi skólastiga, hvernig umræðan hefði verið síðastliðinn ár, hverju væri vilji til að breyta og hvers vegna. „Hér er talað eins og aðalbreytan sem eigi að horfa á sé rekstrarform skólanna,“ sagði Dagur í umræðu um tillöguna á fundi borgarstjórnar í dag.

Borgarstjóri segir umræðuna bera þess merki að hún sé á …
Borgarstjóri segir umræðuna bera þess merki að hún sé á byrjunarstigi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það mætti ætla miðað við tillöguna og umræðuna að það væru fyrst og fremst til tvær tölur, borgarrekna talan sem fer með hverjum nemanda og sjálfstætt rekna talan sem fer með hverjum nemanda. Þetta er fjarri lagi. Og allir sem hafa innsýn inn í það hvernig fjármagni er úthlutað vita að þetta er miklu flóknara heldur en það.“ Sagði Dagur fjárframlög til að mynda fara eftir stærðum bekkjardeilda, skólastigi, þörf á stuðningi fyrir hvern nemanda og fleiru.

„Það að byrja umræðuna út frá einhverjum upphafsreit að rekstrarformið ráði úrslitum um hvað hver og einn skóli fær í framlag hér er mjög villandi svo ekki sé meira sagt.“

Dagur sagðist þó ekki líta svo á að núverandi úthlutunarlíkan væri fullkomið, enda væri verið að skoða önnur líkön og aðrar fyrirmyndir, til dæmis í Kanada.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert