Þorfinni karlsefni velt af stalli

Styttan af Þorfinni karlsefni.
Styttan af Þorfinni karlsefni. Ljósmynd/Wikipedia.org

Talið er að skemmdarvargar beri ábyrgð á því að stytta Einars Jónssonar myndhöggvara af íslenska landkönnuðinum Þorfinni karlsefni, sem staðið hefur í Fíladelfíuborg í Bandaríkjunum frá árinu 1920, er ekki lengur á stalli sínum.

Lögreglan í Fíladelfíu rannsakar málið en engir eru enn undir grun um að hafa velt styttunni af stallinum í Fairmount-garði og út í Schuylkill-ána sem rennur þar hjá. Lögreglan var kölluð á staðinn í morgun að íslenskum tíma samkvæmt frétt NBC.

Talsvert hefur þurft til þess að velta styttunni en hún er 3,6 metrar á hæð og úr bronsi. Þorfinnur sigldi til Ameríku og nam þar land ásamt konu sinni Guðríði Þorbjarnadóttur fyrir um eitt þúsund árum samkvæmt Íslendingasögunum.

Fram kemur í fréttinni að hvítir þjóðernissinnar hafi í gegnum tíðina haldið samkomur við styttuna á degi Leifs Eiríkssonar. Þá segir í fréttinni að styttan af Þorfinni hafi áður orðið fyrir skemmdarverkum og verið úðað málningu á hana.

Mikið hefur verið rætt um styttur í Bandaríkjunum, aðallega með skírskotun til borgarastyrjaldarinnar í landinu um miðja 19. öld, sem tengdar hafa verið við kynþáttahatur og margar verið teknar niður í kjölfar mótmæla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert