Verkfall þrátt fyrir greiðslustöðvun

Airbus 321-flugvél Primera Air.
Airbus 321-flugvél Primera Air. Ljósmynd/Aðsend

Þrátt fyrir greiðslustöðvun Primera Air mun Flugfreyjufélag Íslands boða verkfall hjá ríkissáttasemjara í dag vegna flugfreyja um borð í vélum flugfélagsins sem hafa flogið með farþega til og frá Íslandi.

Þetta segir Magnús M. Norðdahl, deildarstjóri lögfræðideildar ASÍ. Verkfallsboðunin var samþykkt af Flugfreyjufélaginu fyrir helgi, áður en tíðindin af greiðslustöðvun Primera Air bárust.

Þar sem flugfélagið hefur ekki verið úrskurðað gjaldþrota er verkfallið boðað öryggisins vegna ef starfsemin myndi hefjast á nýjan leik. Þá myndu allar skuldbindingar gagnvart flugfreyjum fara yfir á nýjan aðila. Boða þarf vinnustöðvun sjö sólarhringum áður en verkfall skellur á en umrætt verkfall á að hefjast 15. nóvember.

Ráðningarformið misnotað 

Magnús kveðst hafa miklar áhyggjur af flugfreyjum Primera Air og bendir á að þær séu sagðar sjálfstæðir verktakar en séu í rauninni ekkert annað en launafólk. Verið sé að misnota ráðningarformið. Hann nefnir að verktakamiðlun á Guernsey sendi þær til starfa sem sjálfstæða verktaka til Lettlands og þaðan séu þær sendar til Íslands og hafi verið að fljúga héðan.

Engir Íslendingar hafa starfað hjá flugfélaginu undanfarið, að sögn Magnúsar [innsk. blaðamanns: ábending barst mbl.is um að tvær íslenskar konur hafi starfað þar undanfarið] Hann hefur ekki upplýsingar um fjölda starfsmanna sem um ræðir en líklega skipta þeir tugum. Til að mynda hafi Primera á tímabili verið með átta íbúðir í Reykjanesbæ fyrir starfsmenn sína.

Flugvél Primera Air á flugi.
Flugvél Primera Air á flugi.

Verulegar áhyggjur af starfsmönnunum

„Ég hef verulegar áhyggjur af þessum starfsmönnum. Í fyrsta lagi vegna þess að samkvæmt reglum Evrópusambandsins eru kröfur verktaka ekki verndaðar eins og kröfur launamanna. Það kæmi mér ekki á óvart ef þarna væri stór hópur flugliða sem ætti inni kröfur hjá þessu fyrirtæki,“ segir hann.

Hættan er sú, að sögn Magnúsar, að mál flugfreyjanna verði ekki meðhöndlað sem forgangskrafa við þrotabúið. Aftur á móti séu dómafordæmi Evrópudómstólsins skýr. „Við höfum meðal annars vitnað í það í okkar slag við Primera. Að svona falskir verktakasamningar hafi ekki þennan rétt af flugliðunum. Ég vona að þær komist í hendur góðra lögmanna í Lettlandi sem gæta hagsmuna þeirra,“ segir hann.

mbl.is