Innri endurskoðun tryggi óháða rannsókn

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs Reykjavíkur.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Innri endurskoðun [Reykja­vík­ur­borg­ar] er algjörlega óháður aðili í borgarkerfinu og við lítum á að það sé óháð rannsókn að málið fari þangað,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar og formaður borgarráðs, í samtali við mbl.is.

Til­laga Vig­dís­ar Hauks­dótt­ur, borg­ar­full­trúa Miðflokks­ins, um óháða rann­sókn á rúm­lega 400 millj­óna króna bragg­an­um í Naut­hóls­vík var hafnað án at­kvæðagreiðslu á borg­ar­stjórn­ar­fundi í gær­kvöldi en vísað til innri end­ur­skoðunar Reykja­vík­ur­borg­ar.

Vig­dís sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að með því að vísa mál­inu til innri end­ur­skoðunar sé verið að setja það und­ir pils­fald­inn.

Þórdís Lóa segir að nú þegar fari fram vinna hjá innri endurskoðun borgarinnar þar sem farið er ofan í ýmsa ferla sem snúa að verklegum framkvæmdum sem hafa verið í framkvæmd. „Aðferðafræðin er nú þegar í fullri vinnslu og þess vegna töldum við mikilvægt að þetta verkefni færi beint inn í það líka því að við viljum fá þetta upp á borðið mjög hratt,“ segir hún.

Minni kostnaður að vísa málinu til innri endurskoðunar

Þá segir Þórdís Lóa að meirihlutinn í borgarstjórn treysti innri endurskoðun fullkomlega til að vera óháður aðili til þess að taka málið út. Þá fylgi því einnig minni kostnaður en ef utanaðkomandi óháður aðili yrði fenginn til að sjá um úttektina. 

„Við lítum á það sem mikið forskot að vera með óháðan endurskoðanda sem þekkir borgarkerfið og hefur fullan aðgang að öllum gögnum. En um leið getum við treyst því að það sé algjörlega óháð mat á því kerfi sem borgin er,“ segir Þórdís Lóa.  

Upphaflega var gert ráð fyrir að kostnaðurinn við að gera upp braggann yrði um 157 milljónir króna. Í sundurliðuðum kostnaði Reykjavíkurborgar vegna endurbyggingarinnar kemur hins vegar í ljós að kostnaðurinn er kominn vel yfir 200 milljónir.

Þórdís Lóa segist vera bjartsýn á að úttektin gangi hratt fyrir sig og von sé á niðurstöðum hennar von bráðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert