Ríkinu gert að greiða 1,4 milljóna miskabætur

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi íslenska ríkið til að greiða Gísla Reynissyni, …
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi íslenska ríkið til að greiða Gísla Reynissyni, einum sakborninganna í Aserta-málinu, 1,4 milljónir króna í miskabætur. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær íslenska ríkið til að greiða Gísla Reynissyni, einum sakborninganna í svonefndu Aserta-máli, 1,4 milljónir króna í miskabætur.

Bæturnar fær Gísli fyrir kyrrsetningu á eignum, sem að mati dómstólsins stóð of lengi, sem og fyrir ummæli sem Helgi Magnús Gunnarsson, þáverandi yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, lét falla. Er Helgi sagður hafa gefið sekt Gísla til kynna er rannsókn málsins var nýhafin og þannig vegið að æru hans.  

Gísli var einn fjögurra sakborninga í Aserta-málinu, en þeir voru sakaðir um að hafa brotið gegn fjár­magns­höft­un­um með ólög­mæt­um gjald­eyrisviðskipt­um. Málið kom upp í janúar 2010 og voru fjórmenningarnir sýknaðir af Héraðsdómi Reykjaness 2016.

Fjór­menn­ing­arn­ir áttu, í nafni sænska fé­lags­ins Aserta AB, gjald­eyrisviðskipti með því að kaupa ís­lensk­ar krón­ur af er­lend­um fjár­mála­fyr­ir­tækj­um fyr­ir er­lend­an gjald­eyri sem mótaðilar þeirra höfðu lagt inn á gjald­eyr­is­reikn­ing á nafni fé­lags­ins í banka í Svíþjóð. 

Gísli höfðaði síðan mál gegn íslenska ríkinu vegna þess sem hann hefði mátt þola við meðferð málsins. Krafði hann ríkið um 65 milljóna króna í bætur og rökstuddi kröfu sína með því að hann hefði verið handtekinn, hald lagt á eigur hans, fjármunir kyrrsettir og leitað hefði verið á heimili hans og í bílum. Allt hefði þetta verið gert að tilefnislausu.

Eins taldi Gísli aðgerðirnar hafa staðið allt of lengi. Þær hefðu kostað hann vinnuna, auk þess sem Helgi Magnús hefði misgert sér með því að segja sekt hans sannaða í yfirlýsingum sínum á upphafsstigum rannsóknarinnar.

Héraðsdómur hafnar flestum kröfum Gísla og segir rannsóknina ekki hafa verið tilhæfulausa. Fyrir liggi að starfsemi fjórmenninganna, sem rannsókn lögreglu laut að, hafi verið umfangsmikil „og til þess fallin að torvelda stjórnvöldum að ná markmiðum sínum í gjaldeyrismálum og tryggja að skilaskyldur gjaldeyrir skilaði sér til landsins,“ að því er segir í dóminum.

Eins verði að telja að málið hafi „við upphaf rannsóknar litið þannig út frá sjónarhóli lögreglu að rökstuddur grunur hafi verið uppi um að starfsemin væri andstæð ákvæðum laga um gjaldeyrismál og reglum settum samkvæmt þeim og jafnframt refsiverð á grundvelli þeirra laga“.

Gísla hafi líka mátt vera ljóst að „hin umfangsmikla starfsemi Aserta væri í andstöðu við markmið ákvæða gjaldeyrislaga“ og „til þess fallin að vekja grunsemdir um refsiverðan verknað“.

Dómstóllinn telur starfslok Gísla hjá Straumi, þar sem hann hætti störfum í mars 2009, einnig hafa einnig verið ótengd málinu. Því sé kröfu um bætur vegna atvinnumissis, sem og fjártjóns vegna kyrrsetningar, hafnað. Hélt Gísli því fram í stefnu sinni að sér hefði reynst erfitt að fá vinnu vegna málsins, en dómstóllinn telur þá fullyrðingu hans með öllu vera órökstudda.

Dómstóllinn fellst engu að síður á að haldlagning og kyrrsetning eigna Gísla hafi staðið of lengi. Þrjú ár liðu frá því að málið hófst og þar til ákært var og sex ár þar til fallið var frá frekari málaferlum.

Á þessu er íslenska ríkið talið eiga sök, enda megi rekja tafirnar að hluta til manneklu hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra.

Þá telur dómstóllinn einnig að ummæli Helga Magnúsar, á blaðamannafundi um málið í janúar 2010 og í viðbragði við Morgunblaðið fjórum dögum síðar, hafi verið  „óheppileg og ótímabær og gefið sekt“ Gísla fyrir fram til kynna er rannsókn var þá skammt á veg komin. Helgi Magnús hafi með þessu vegið að æru Gísla, sem fyrir vikið eigi rétt á bótum.

Er íslenska ríkinu því gert að greiða Gísla 1,4 milljónir króna í bætur, auk 1,1, milljónar í lögfræðikostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert