Aukinn hraði leiðir til fleiri slysa

Vespum er ekið jafnt á vegum, gangstéttum, stígum og yfir …
Vespum er ekið jafnt á vegum, gangstéttum, stígum og yfir gangstéttir. mbl.is/Hari

Samgöngustofa hefur ekki orðið vör við fjölgun kvartana vegna léttra bifhjóla, sem eru m.a. rafmagns- eða bensínknúnar vespur sem aka má á gangstígum og -stéttum auk hjólastíga. Samgöngustofa er þó meðvituð um þann möguleika að hægt er að breyta hjólunum svo þau komist hraðar og þá hættu sem breyttum hjólum fylgir. Þetta kemur fram í skriflegu svari frá Þórhildi Elínardóttur, samskiptastjóra stofunnar, við fyrirspurnum Morgunblaðsins.

„Ef hjólið kemst hraðar en 25 km/klst. er það komið í flokk II þar sem krafist er bifhjólaprófs eða ökuskírteinis. Hjól í flokki II eru oft kölluð skellinöðrur í daglegu tali og þarf ökumaður að hafa náð 15 ára aldri,“ segir í svari Þórhildar. Hún tekur fram að foreldrar þurfi að vera meðvitaðir um að hægt er að breyta hámarkshraða hjólanna. Einhver dæmi séu um að það sé gert án vitneskju foreldra og ábyrgðarmanna og þar með er hjólið komið í næsta flokk sem felur í sér mikla hættu fyrir yngri ökumenn.

Ekki gerð krafa um ökunám

Ekki er gerð krafa um ökunám eða ökuréttindi til þess að aka léttum bifhjólum í flokki I en ökumaður verður að hafa náð 13 ára aldri. Skylda er að vera með bifhjólahjálm við akstur. Ökumaður má einungis vera með farþega eftir að hafa náð 20 ára aldri og ef hjólið er gert fyrir farþega.

Með breytingum á umferðarlögum árið 2015 voru létt bifhjól í flokki I gerð skráningarskyld. Ekki er þó búið að virkja skráningarskylduna og Þórhildur segir í skriflegu svari að „við vinnu við virkjun skráningarskyldunnar hefur verið horft til framkvæmdar annars staðar á Norðurlöndum, en m.a. er til skoðunar hvort nauðsynlegt er að gera bifhjól í flokki I tryggingaskyld og skoðunarskyld samhliða skráningarskyldu“.

Virk fræðsla til unglinga

Þórhildur nefnir sérstaklega í svari sínu að Samgöngustofa hefur gefið út bækling til upplýsinga, forvarna og fræðslu um helstu atriði varðandi notkun og öryggi léttra bifhjóla. Bæklingurinn hefur verið sendur á alla grunnskóla landsins og er einnig aðgengilegur á vefsíðu Samgöngustofu. Til stendur að gefa út fræðslumyndband með sömu upplýsingum. Þá hafa fulltrúar Samgöngustofu heimsótt grunnskóla og verið starfsfólki skóla, foreldrum og foreldrafélögum til ráðgjafar um forvarnir og fræðslu til nemenda.

Morgunblaðið leitaði svara hjá Sjóvá hvernig tryggingamálum er háttað ef ökumaður létts bifhjóls slasast eða ef þriðji aðili verður fyrir hjólinu. Í skriflegu svari frá Karlottu Halldórsdóttur, verkefnastjóra forvarna hjá Sjóvá, segir að vespur sem teljast létt bifhjól í flokki I séu ekki vátryggingaskyldar og mismunandi geti verið eftir tryggingafélögum hvernig vespur eru tryggðar.

Hjá Sjóvá eru létt bifhjól í flokki I tryggðar inni í Fjölskylduvernd 2 og 3. Verndin nær yfir slys á ökumanni, þjófnað á vespunni, skemmdir á henni og líkams- eða munatjón þriðja aðila ef til skaðabótaábyrgðar kemur. Verndin er þó háð þeim skilyrðum að ekki hafi verið átt við hjólið, þ.e. að það komist ekki hraðar en 25 km/klukkustund.

Um tilvik þar sem þriðji aðili verður fyrir tjóni segir Karlotta að þá þurfi að leita til ábyrgðartryggingar sem er innifalin í Fjölskylduverndinni. Í slíkum tilfellum þarf að liggja fyrir rökstuðningur fyrir því að ökumaður hafi sýnt af sér sök eða gáleysi og þá getur myndast skaðabótaskylda á ökumanninn. Ef ekki er hægt að færa rök fyrir því að ökumaður hafi sýnt af sér sök á þolandinn ekki rétt á bótum en getur leitað í sína eigin heimilistryggingu ef hún er til staðar.

Karlotta segir að ekki hafi verið tekið saman hvort slysum, þar sem létt bifhjól í flokki I koma við sögu, hafi fjölgað. „En við höfum tilfinningu fyrir því að þeim hafi fjölgað talsvert að undanförnu,“ segir hún.

Erfitt er að sinna eftirliti

Karlotta segir að Sjóvá hafi áhyggjur af því að skráningarskylda sé ekki virk. „Það er því erfitt fyrir lögreglu að fylgjast með því hvort bifhjól á gangstéttum eru í reynd bifhjól í flokki I eða í flokki II. Nokkuð hefur borið á því að búið sé að taka hraðatakmörkunarbúnað úr þessum hjólum og þau því í reynd orðin létt bifhjól í flokki II sem ber að tryggja með lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækja. Með auknum hraða aukast líkur á tjóni og alvarlegum slysum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert