Bryggjuhverfið brátt fullbyggt

Í Bryggjuhverfinu eru 600 íbúðir og skráðir íbúar eru nú …
Í Bryggjuhverfinu eru 600 íbúðir og skráðir íbúar eru nú 1.100 talsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nú styttist í að Bryggjuhverfið við Elliðaárvog/Grafarvog verði fullbyggt samkvæmt upphaflegum hugmyndum. Fyrstu íbúðarhúsin risu fyrir 20 árum.

Fyrir dyrum stendur að stækka hverfið í vesturátt en hin nýja byggð mun rísa á athafnasvæði Björgunar, að hluta til á landfyllingum. Í nýja hverfinu verður í boði þjónusta sem vantað hefur í hverfið til þessa, þ.e. skólar og verslanir.

Í Bryggjuhverfinu eru um það bil 600 íbúðir. Uppbygging hverfisins er á lokastigi þar sem nyrsta og síðasta húsið á vesturhluta svæðisins er nú í byggingu. Skráðir íbúar eru nú 1.100, samkvæmt upplýsingum Jóns Halldórs Jónassonar, upplýsingafulltrúa hjá Reykjavíkurborg.

Ætla má, út frá þessum tölum, að fáar barnafjölskyldur hafi sest að í hverfinu, enda er þar enginn skóli. Þetta mun eflaust breytast þegar hverfið stækkar og þjónusta við íbúana eykst.

Nýta nálægðina við hafið

Fram kemur á vef Björgunar ehf. að uppúr 1990 hafi nýr kafli í sögu fyrirtækisins hafist. Þá réðst það í stækkun á lóð sinni við Sævarhöfða og uppbyggingu bryggjuhverfis að erlendri fyrirmynd. Björgun og Reykjavíkurborg gerðu samning um þessa uppbyggingu árið 1992.

Hugmyndin var þróuð í samvinnu við Björn Ólafs arkitekt í París og var upphafið að þátttöku Björgunar í landaþróunarverkefnum þar sem nálægðin við hafið var nýtt til afþreyingar og útivistar. Björgun hefur síðan, stundum í samvinnu við aðra, lagt fram fjölda hugmynda að sambærilegum verkefnum. Tvö þeirra, Sjáland í Garðabæ og Bryggjuhverfi á norðanverðu Kársnesi í Kópavogi, bæði unnin í samvinnu við Byggingafélag Gylfa og Gunnars ehf., hafa orðið að veruleika.

Fyrir miðri mynd má sjá síðasta húsið í byggingu. Vinstra …
Fyrir miðri mynd má sjá síðasta húsið í byggingu. Vinstra megin er athafnasvæði Björgunar, þar sem næsti áfangi hverfisins mun rísa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Upphaflegt deiliskipulag fyrir Bryggjuhverfið er frá árinu 1997 og fyrstu húsin risu árið 1998. Hverfið byggðist upp hægt og rólega. Árið 2009 var gerð gagnger breyting á skipulagi vesturhluta svæðisins. Sá hluti svæðisins hafði verið hugsaður til verslunar- og þjónustunota en notkunarheimild var breytt í íbúðir ásamt því að fyrirkomulagi byggðarinnar var breytt. Uppbygging í hverfinu tók mikinn kipp á allra síðustu árum. Þannig byggði ÞG-verk alls 280 nýjar íbúðir í hverfinu.

Nú hillir undir að þessi hluti hverfisins verði fullbyggður.

Samkvæmt samningi sem Reykjavíkurborg og Björgun gerðu í fyrra á fyrirtækið að flytja starfsemi sína úr Sævarhöfða í síðasta lagi í maí 2019.

Það var svo í desember 2017 að Reykjavíkurborg gerði samning við Faxaflóahafnir um kaup á 76 þúsund fermetra lóð í Sævarhöfða við Elliðaárvog fyrir 1.098 milljónir króna, þ.e. lóðina sem Björgun hafði haft til afnota. Kaupin eru gerð að undangengnum samningum sem Faxaflóahafnir gerðu við Björgun ehf. um brottflutning og hreinsun svæðisins ásamt gerð hluta þeirrar landfyllingar sem fyrirhuguð er. Hluti svæðisins verður með byggingarhæfar lóðir í upphafi en lengri tíma mun taka að gera lóðir byggingarhæfar á nýrri landfyllingu.

Svona sjá arkitektar fyrir hvernig Bryggjuhverfið muni þróast. Græni hlutinn …
Svona sjá arkitektar fyrir hvernig Bryggjuhverfið muni þróast. Græni hlutinn er næsti áfangi og lokaáfanginn í framhaldinu. Tölvumynd/Arkís

Vilyrði hefur þegar verið veitt fyrir tveimur lóðum á svæðinu, annars vegar til Bjargs hses. og hins vegar til Búseta. Þær lóðir verða fyrst byggingarhæfar. Sementstankarnir, sem setja mikinn svip á svæðið, fá að standa áfram.

Í desember í fyrra var samþykkt að auglýsa deiliskipulag fyrir svæðið. Á þeim hluta svæðisins, þar sem unnið hefur verið deiliskipulag, er gert ráð fyrir að rísi 830 íbúðir. Einnig er gert ráð fyrir leik- og grunnskóla fyrir yngri skólastigin og verslun/þjónustu við svokallað Bryggjutorg.

Í framtíðinni er síðan reiknað með, samkvæmt rammaskipulagi, að svæðið stækki enn frekar til vesturs á nýrri landfyllingu. Sá hluti hverfisins verður næst Elliðaánum, eins og sést á tölvumyndinni, sem fylgir þessari grein.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert