Drottnarar hafsins til sýnis

Fallbyssurnar á orrustuskipinu New Jersey eru engin smásmíð, en hlaupvídd …
Fallbyssurnar á orrustuskipinu New Jersey eru engin smásmíð, en hlaupvídd þeirra er rúmir 40 sentimetrar. Þrjár fallbyssur eru í þremur turnum, tveimur að framan og einum að aftan. mbl.is/Hjörtur

Sú var tíðin að orrustuskipin drottnuðu yfir höfunum og þóttu öflugustu vopnin sem herveldi heimsins áttu í fórum sínum þegar kom að sjóhernaði. Má segja að flotastyrkur herveldanna hafi ekki síst verið metinn eftir því hversu mörgum og hversu öflugum slíkum skipum þau höfðu yfir að ráða og kepptust þau lengi vel við að reyna að skjóta hvert öðru ref fyrir rass í þeim efnum með sífellt stærri skipum með sífellt stærri fallbyssum og öðrum vopnabúnaði.

Það má segja að blómatími orrustuskipanna hafi staðið yfir frá því á seinnihluta 19. aldar og fram að miðri 20. öldinni. Orrustuskip voru þó notuð mun lengur í hernaði en það þó þau hafi hvergi verið lengur uppistaðan í herskipaflota, en Bandaríkjamenn notuðu slík skip í Kóreustríðinu, Víetnamstríðinu og Persaflóastríðinu. Einu orrustuskipin sem til eru í dag eru einmitt bandarísk en átta slík skip eru nú söfn víðs vegar um Bandaríkin. Þeirra á meðal orrustuskipið New Jersey sem staðsett er í borginni Camden í New Jersey-ríki og blaðamaður skoðaði í sumar.

Séð að stefni New Jersey og í átt að Benjamin …
Séð að stefni New Jersey og í átt að Benjamin Franklin-brúnni.

Meðfylgjandi myndir, utan ein sem er af orrustuskipinu Massachusetts, voru teknar í skoðunarferðinni um New Jersey en skipið liggur við festar í Delaware-ánni sem skilur að borgirnar Camden og Fíladelfíu. New Jersey var tekið í notkun í maímánuði árið 1943 þegar síðari heimsstyrjöldin var í algleymingi. Skipið er eitt af fjórum systurskipum, af Iowa-klassanum, sem öll eru enn varðveitt sem söfn í Bandaríkjunum. Hin eru Iowa sem staðsett er í borginni Los Angeles í Kaliforníuríki, Missouri sem er að finna í Perluhöfn á Havaí og Wisconsin sem er í Norfolk í Virginíuríki. Önnur orrustuskip sem enn eru til í Bandaríkjunum eru Texas, sem er staðsett í La Porte í Texasríki, Alabama, sem finna má í Mobile í Alabamaríki, North Carolina í Wilmington í Norður-Karólínu og Massachusetts í borginni Fall River í Massachusetts.

Sýningin í skipinu segir frá sögu og búnaði orrustuskipanna.
Sýningin í skipinu segir frá sögu og búnaði orrustuskipanna.

Öll fjögur orrustuskipin af Iowa-klassanum voru notuð í Kóreustríðinu, sem geisaði á árunum 1950-1953, og New Jersey í Víetnamstríðinu sem stóð fram til 1975. Skipin fjögur voru aftur tekin í notkun á níunda áratug síðustu aldar í tengslum við áform þáverandi stjórnvalda í Bandaríkjunum um að byggja upp bandaríska flotann. Búnaður skipanna hafði þá verið færður til nútímalegs horfs, þar á meðal rafeindabúnaður þeirra, og þau meðal annars búin flugskeytum til viðbótar við upphaflegan vopnabúnað þeirra. New Jersey tók þátt í aðgerðum í Líbanon 1983 og 1984 og Missouri og Wisconsin í Persaflóastríðinu.

Voru mjög stór skotmörk

Líkt og með marga aðra hernaðartækni viku orrustuskipin að lokum til hliðar vegna framþróunar á því sviði. Ekki síst vegna framfara í flugvélatækni en þrátt fyrir að orrustuskipin væru sífellt búin öflugari loftvarnarbyssum þá breytti það ekki þeirri staðreynd að þau voru mjög stór skotmörk. Fleira gerði orrustuskipin að lokum óþörf. Til að mynda framþróun í vopnabúnaði. Ekki síst flugskeytin sem miklu minni skip gátu borið. Stóru fallbyssurnar voru ekki lengur það sem máli skipti í sjóhernaði.

Hér má sjá hvar orrustuskipið New Jersey liggur við bakka …
Hér má sjá hvar orrustuskipið New Jersey liggur við bakka Delaware-fljótsins í borginni Camden í New Jersey-ríki í Bandaríkjunum. Skipið er í dag safn sem opið er almenningi.

Þegar voru komnar fram sterkar vísbendingar um það fyrir síðari heimsstyrjöldina að orrustuskipin væru að verða barn síns tíma. Bandaríski hershöfðinginn Billy Mitchell sýndi til að mynda fram á það á árunum fyrir síðari heimsstyrjöldina hversu auðvelt væri að sökkva orrustuskipum með loftárásum. Meðal annars vegna þess ákváðu stjórnvöld í Bandaríkjunum að leggja meiri áherslu á að smíða flugmóðurskip, sem reyndust síðan skipta sköpum í síðari heimsstyrjöldinni þegar Bandaríkjamenn háðu mikilvægar sjóorrustur á Kyrrahafinu við Japani. Þar skiptu flugmóðurskip þeirra sköpum.

Orrustuskipið New Jersey séð frá hlið.
Orrustuskipið New Jersey séð frá hlið.

Söfnin í kringum orrustuskipin eru rekin af félagsamtökum sem hafa það fyrst og fremst að markmiði að varðveita þau og eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Markmiðið er einfaldlega að varðveita þennan hluta bandarískrar sögu.

Sjónarhornið úr brúnni á New Jersey út á fallbyssurnar að …
Sjónarhornið úr brúnni á New Jersey út á fallbyssurnar að framan.
Hér má sjá eina af minni fallbyssum skipsins.
Hér má sjá eina af minni fallbyssum skipsins.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert