Húsið fái lágstemmt og hógvært yfirbragð

Vesturhús höfuðstöðva Orkuveitunnar hefur staðið autt síðastliðið ár.
Vesturhús höfuðstöðva Orkuveitunnar hefur staðið autt síðastliðið ár. mbl.is/Hjörtur

Mat sérfræðinga er að hagkvæmast og öruggast sé að skipta um alla útveggi í svokölluðu Vesturhúsi Orkuveitu Reykjavíkur við Bæjarháls, en láta burðarvirki og gólf halda sér. Eftir viðgerðir mun húsið fá lágstemmdara og hógværara yfirbragð. Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitunni, en síðastliðið ár hefur verið unnið að greiningu á nokkrum valkostum til að ráða niðurlögum rakaskemmda á húsinu við Bæjarháls.

Áður en lokaákvörðun um framhaldið verður tekin verður verkfræðihönnun boðin út, en hönnunin er forsenda vandaðrar kostnaðaráætlunar fyrir viðgerðina. Stefnt er að því að niðurstaðan liggi fyrir í vor. 

Á blaðamannafundi fyrir rúmu ári greindu stjórnendur Orkuveitunnar frá því að umfangsmiklar rakaskemmdir væru í svokölluðu Vesturhúsi við Bæjarháls, en húsið hefur staðið autt síðan. Þá hafði verið reynt að gera við hluta útveggjanna en árangur viðgerðanna var óviðunandi. Nokkrar hugmyndir að lausn voru þá kynntar og hafa þær verið til vandlegrar skoðunar síðan.

Í tilkynningu segir að beitt verði viðurkenndum lausnum og útfærslum við viðgerð og að húsið komi til með að fá hógværara og lágstemmdara yfirbragð. Hagkvæmni í byggingu og rekstri verði höfð að leiðarljósi. Heilir hlutar Vesturhússins muni nýtast eins og hægt er, svo sem burðarvirki, gólfplötur, loftræstikerfi og fleira. Þá verði skrifstofurýmin sveigjanleg og heilsusamleg.

Framangreind sjónarmið hafi meðal annars leitt af sér að formi útveggja hússins verði breytt. Í stað þess að þrjár hliðar hússins slúti fram yfir sig, eins og nú er, verði allir útveggir þess lóðréttir. Með því má beita byggingaraðferðum sem góð reynsla er af við íslenskar aðstæður. Áhætta og kostnaður af því að viðhalda núverandi lögun útveggjanna, hvaða leið sem að öðru leyti yrði farin, eru talin útiloka slíkan kost.

Þegar ljóst varð hve miklar skemmdir voru á Vesturhúsinu leitaði Orkuveitan til Héraðsdóms Reykjavíkur um að kalla til matsmenn til að meta umfang og eðli skemmdanna, orsakir og hugsanlega ábyrgð á þeim. Matsmenn eru nú að störfum. Orkuveitan mun byggja ákvörðun um hugsanlegar bótakröfur á niðurstöðu matsins. Ekki er vitað hvenær niðurstöður liggja fyrir.

mbl.is