Í fyrsta sæti í öllum aldursflokkum

Íslensku stelpurnar sigruðu í öllum aldursflokkum í einstaklingskeppni og hópdansinum …
Íslensku stelpurnar sigruðu í öllum aldursflokkum í einstaklingskeppni og hópdansinum í danskeppninni í Dublin á Írlandi. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Átta íslenskar stúlkur fóru sigri hrósandi frá WLDF-danskeppninni sem haldin var í Dublin í Írlandi um miðjan síðasta mánuð. Um hundrað dansarar voru skráðir til leiks.

Stúlkurnar eru allar í afrekshópi breska danshöfundarins Chantelle Carey sem hlaut Grímuverðlaunin 2017 og 2018 fyrir dans- og sviðshreyfingar í sýningunum Bláa hnettinum og Slá í gegn. Markið er sett á að komast á heimsmeistaramót í ágúst á næsta ári.

Stúlkurnar kepptu í einstaklingskeppni og sem hópur. Sigríður Ragnarsdóttir keppti í flokki undir 14 ára þar sem hún hafnaði í fyrsta sæti. Í flokki undir 16 ára kepptu fjórar íslensku stelpnanna og skipuðu þær allar efstu fjögur sætin. Ísabella Tara Antonsdóttir varð í fyrsta sæti, Rut Rebekka Hjartardóttir önnur, Sandra Kristjánsdóttir í þriðja og Eydís Gauja Eiríksdóttir fjórða. Þá varð Hildur Kaldalóns Björnsdóttir í fyrsta sæti í flokki eldri en 18 ára.

Kepptu sem víkingar í liðakeppninni

Þá kepptu stúlkurnar átta, ofantaldar auk þeirra Sóleyjar Agnarsdóttur og Helgu Harðardóttur, sem „víkingar“ í hópdansi eldri en 14 ára og unnu flokkinn með glæsibrag.

Þá kepptu stúlkurnar allar í frjálsri aðferð þar sem Rut Rebekka endaði í fyrsta sæti.

„Við náðum fyrsta sætinu í öllum flokkum, og í þeim flokkum þar sem fjórar stelpnanna kepptu náðum við efstu fjórum sætunum,“ segir Chantelle, augljóslega mjög hreykin af íslensku stelpunum. Hún kom fyrst hingað til lands árið 2014 sem aðstoðarkóreógraf og dansþjálfari í Billy Elliot-sýningunni í Borgarleikhúsinu. Þar þjálfaði hún m.a. tvær stúlknanna sem tóku þátt í keppninni í Dublin.

Chantelle Carey er tvöfaldur Grímuverðlaunahafi fyrir dans- og sviðshreyfingar.
Chantelle Carey er tvöfaldur Grímuverðlaunahafi fyrir dans- og sviðshreyfingar. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Chantelle hefur verið með annan fótinn á Íslandi eftir að hún starfaði í kringum Billy Elliot en er búsett í Lundúnum. Hefur hún komið fram í fjölda söngleikja á West End og víða um heim, og starfað við listræna stjórnun í söngleikjum. Auk Chantelle kom breski ballettkennarinn Dilly Greasley, sem starfaði með Chantelle að dansþjálfun fyrir Billy Elliot, að þjálfuninni.

Stelpurnar kepptu í ljóðrænum dansi (e. Lyrical Dance), sem er eins konar blanda af ballett, djassi og listrænni tjáningu með söguþræði. „Þetta er fyrsta keppnin sem þessi hópur tekur þátt í og við kepptum í einni tegund af dansi til að sjá hvernig þær stæðu sig undir álagi,“ segir Chantelle. „Þær kepptu í flokki nýliða en með sigrinum fara þær upp um flokk og keppa næst við fleiri keppendur í þeirra aldursflokki,“ segir hún. Chantelle segir það hafa verið frábært að sjá hversu mikinn stuðning stelpurnar fengu líka heima fyrir. „Þetta hefði aldrei gengið upp án foreldra stelpnanna. Foreldrar þeirra alla fylgdu þeim út og hvöttu þær áfram, það var ótrúlegt að sjá það,“ segir hún. „Þau hjálpuðu til við að sauma búningana, sjá um hárið á þeim og studdu þær alla leið,“ segir hún. Chantelle segir að undirbúningur sé hafinn fyrir næstu keppni í Bretlandi, þar sem þær geta unnið sér inn þátttökurétt á heimsmeistaramóti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »