Nabakowski-bræður krefjast skaðabóta

Bræðurnir Marc­in og Rafal Naba­kowski í dómsal.
Bræðurnir Marc­in og Rafal Naba­kowski í dómsal. mbl.is/Golli

Bræðurnir Rafal og Marcin Nabakowski hafa stefnt íslenska ríkinu. Þeir krefjast samtals 3,2 milljóna króna í miskabætur fyrir gæsluvarðhaldsvist vegna rannsóknar á Æsustaðamálinu sem kom upp í Mosfellsdal í fyrrasumar.

RÚV greinir frá þessu.

Þar lést Arnar Jónsson Aspar eftir átök við Svein Gest Tryggvason, sem var sá eini sem var ákærður í málinu. Hann var dæmdur í sex ára fangelsi fyrir líkamsárás en áfrýjaði málinu til Landsréttar.

Nabakowski-bræður sátu í varðhaldi í átta daga. Hvor þeirra krefst 200 þúsund króna í bætur fyrir hvern dag í varðhaldinu, eða samtals 1,6 milljóna króna á mann.

Stefnur þeirra á hendur ríkinu voru gefnar út í apríl. Þær verða teknar fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur eftir helgi. Fram kemur að þeir hafi verið í vinnufötum er þeir voru handteknir og að þau hafi ekki verið tekin af þeim til rannsóknar eins og búast hefði mátt við ef þeir hefðu í raun og veru verið grunaðir um aðild að málinu.

Einnig kemur fram í stefnunni, að sögn RÚV, að bræðurnir hafi báðir verið í fullu starfi þegar atvikið varð en enginn hafi viljað ráða þá eftir að það kom upp, enda hafi þeir verið nafngreindir í fjölmiðlum. Einnig hafi þeir ítrekað reynt að fá leigða íbúð, án árangurs.

Bræðurnir hafa áður komist í kast við lögin því þeir voru í fyrra dæmdir vegna skotárásar í Fellahverfi í Breiðholti. Dómurinn yfir öðrum bróðurnum var þyngdur í Landsrétti á þessu ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert