593 milljóna skattamál verður tekið fyrir

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur sneri í gær við úrskurði héraðsdóms um að vísa frá 593 milljóna króna skattamáli sem embætti héraðssaksóknara hafði ákært í.

Taldi héraðsdómur að málarekstur skattayfirvalda og síðar ákæruvaldsins væri það ótengdur í tíma að ekki væri hægt að líta á rekstur þeirra sem eina samþætta heild.

Hæstiréttur taldi hins vegar nauðsynlegri samþættingu í tíma hafa verið fullnægt við rekstur málanna og leggur fyrir að héraðsdómur taki málið til efnislegrar meðferðar.

Um er að ræða eitt þeirra skattamála sem deilt er um í ljósi dóms Mannréttindadómstóls Evrópu um tvöfalda refsingu í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar. Í framhaldi hans komst Hæstiréttur að því að í þeim tilvikum þar sem rekstur mála annars vegar hjá skattayfirvöldum og hins vegar hjá ákæruvaldinu væri of ótengdur í tíma og efni þá bryti það gegn jafnræðisreglu.

Samkvæmt úrskurði Landsréttar hefur rekstur málanna beggja nú þegar tekið 7 ár og fjóra mánuði.

Tengist málið uppgjöri á samtals 584 gjaldmiðlasamningum sem gerðir voru á árunum 2007-2009 að upphæð 593,5 milljónir. Í ákæru segir að maðurinn hafi ekki staðið skil á efnislega röngum skattframtölum og hafi vanframtalið fjármagnstekjur sem nemi þessari upphæð og þar með komist hjá því að greiða 59,3 milljónir í fjármagnstekjuskatt.

Úrskurður Landsréttar í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert