Sigurður segir Skáksambandsmálið uppblásið

Sigurður Kristinsson mætir til þingfestingar málsins í héraðsdómi í morgun.
Sigurður Kristinsson mætir til þingfestingar málsins í héraðsdómi í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Kristinsson óskaði eftir fresti til að taka afstöðu til ákæru á hendur honum í Skáksambandsmálinu svokallaða sem þingfest var í héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í morgun.  Málið tengist innflutningi á rúmlega fimm kílóum af amfetamíni sem sent var með pakka í húsnæði Skáksambands Íslands í Faxafeni. Málinu var frestað til 25. október.

Auk Sigurðar eru tveir menn á þrítugsaldri ákærðir í málinu, einn 21 árs og hinn 24 ára.

Aðeins annar þeirra mætti við þingfestingu málsins í dag og tók afstöðu til ákærunnar. Hinn óskaði eftir fresti líkt og Sigurður.

Sá sem tók afstöðu til ákærunnar í dag viðurkenndi sök að hluta. Honum er gefið að sök að hafa tekið að sér að millifæra fjármagn og að hafa tekið á móti pakka með fíkniefnunum á bílastæði fyrir utan Skáksambandið og að hafa farið með pakkann í Tungubakka í Mosfellssveit og falið efnin þar.

Lögmaður hans, Sveinn Andri Sveinsson, lýsti því fyrir dómi að verknaðarlýsing væri rétt í ákærunni en að skjólstæðingur hans hafi ekki haft vitneskju um að um fíkniefni væri að ræða né í svo miklu magni heldur hafi hann talið að í pakkanum væru sterar.

„Uppblásið“ mál

„Þetta er nú kannski svolítið uppblásið mál. Þetta er talsvert umfangsminna en fjölmiðlar hafa greint frá. Það kemur í ljós síðar,“ sagði Sigurður við mbl.is eftir þingfestinguna en vildi annars ekki tjá sig frekar. 

Sigurður, sem er fyrrverandi eiginmaður Sunnu Elviru Þorkelsdóttur, hefur ýmist verið í gæsluvarðhaldi eða farbanni síðan hann kom til landsins í lok janúar. Nú síðast var hann úrskurðaður í farbann til 4. október.

Sigurður er einnig ákærður ásamt fleirum í öðru máli í tengslum vegna meiriháttar skattalagabrota verktakafyrirtækisins SS húsa, sem Sigurður átti. Í því máli játaði Sigurður að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatt. Hann hins vegar neitaði sök í öðrum hluta ákærunnar þar sem honum var gerð að sök skil á röngum virðisaukaskattskýrslum þar sem innskattur á grundvelli tilhæfulausra sölureikninga var offramtalinn.

Lögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson mætir ásamt skjólstæðingi sínum.
Lögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson mætir ásamt skjólstæðingi sínum. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert