Í einkaþotu með hraði

Michael Ridley
Michael Ridley mbl.is/​Hari

„Nei, núna!“ voru viðbrögðin sem Michael Ridley, sérfræðingur hjá fjárfestingarbankanum J.P.Morgan, fékk sunnudagsmorguninn 5. október árið 2008, þegar hann tjáði fulltrúa Seðlabanka Íslands gegnum síma að hann gæti komið til fundar við ríkisstjórn Íslands strax að morgni mánudags.

Rúmum fimm tímum síðar var hann kominn um borð í einkaþotu ásamt tveimur samstarfsmönnum. Vélinni var beint til Reykjavíkur og verkefnið var aðeins eitt, að sannfæra ríkisstjórnina um að ekki væri unnt að bjarga íslenska bankakerfinu. Þá um helgina höfðu linnulaus fundahöld staðið yfir með öllum helstu hagsmunaaðilum landsins og öllum steinum snúið við í leit að lausn út úr þeim vanda sem steðjaði að bankakerfinu.

„Ég vissi að vandinn væri mikill og að bankarnir myndu falla. Ég var auk þess sannfærður um að ríkisstjórnin gæti í raun ekki komið neinum vörnum við,“ segir Michael Ridley í samtali við Morgunblaðið í dag, nú þegar 10 ár eru liðin frá setningu neyðarlaganna. Þar lýsir hann þeirri hröðu atburðarás sem olli því að örfáum klukkustundum eftir að fyrrnefnt símtal barst frá Seðlabanka Íslands var hann staddur á fundi í Ráðherrabústaðnum þar sem ríkisstjórn Íslands fór yfir þá stöðu sem sífellt virtist vonlausari. Ridley telur að fundurinn hafi opnað augu þeirra sem ekki höfðu þá þegar gert sér grein fyrir að ekki yrði unnt að bjarga bönkunum.

„Ég held að sumir ráðherrarnir hafi verið búnir að átta sig á stöðunni og að hinir hafi gert það á þessum fundi.“

Í Rannsóknarskýrslu um bankahrunið kom fram í máli Össurar Skarphéðinssonar, þáverandi iðnaðarráðherra, að fulltrúar J.P. Morgan hefðu haldið því fram á fundi aðfaranótt mánudagsins 6. október 2008 að mögulega væri hægt að bjarga Kaupþingi. Morgunblaðið bar þessa fullyrðingu undir Ridley, sem segir óhugsandi að hann eða samstarfsmenn hafi haldið þeirri skoðun fram. Þeir hafi verið sannfærðir um að engum banka yrði bjargað úr því sem komið var.

Sjá ítarlega umfjöllun um hrunið og afleiðingar þess í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »