„Óstaðfestar sögusagnir og dylgjur“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafnar fréttaflutningi Morgunblaðsins.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafnar fréttaflutningi Morgunblaðsins. mbl.is/​Hari

Hvorki formaður né framkvæmdastjóri Eflingar kannast við að fjármálastjóri félagsins hafi neitað að greiða reikninga frá Öldu Lóu Leifsdóttur blaðamanni. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Sólveigu Önnu Jónsdóttur og Viðari Þorsteinssyni, formanni og framkvæmdastjóra Eflingar, sem vísa fréttaflutningi Morgunblaðsins á bug.

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um mikil átök á skrifstofu Eflingar þar sem Sólveig Anna og Viðar eru sögð stjórna með ofríki og hótunum, og að fjármálstjóri félagsins sé kominn í veikindaleyfi eftir átök við umrædda stjórnendur vegna deilna um greiðslur til Öldu Lóu.

Í yfirlýsingunni segir að fullyrðingar blaðsins veki undrun í ljósi þess að umrætt starfsfólk hafi ekki tjáð sig sjálft við blaðamann þegar eftir því hafi verið leitað, líkt og fram kemur í fréttinni, og að því sé um óstaðfestar sögusagnir og dylgjur að ræða. „Mikilli furðu sætir að Morgunblaðið kjósi að birta þannig sögusagnir frá ótilgreindum aðilum um heilsufar, meint ágreiningsmál og önnur viðkvæm málefni starfsfólks á nafngreindum vinnustað.“

Jafnframt segir að allar breytingar sem gerðar hafi verið á fyrirkomulagi fjármála hjá Eflingu síðan nýir stjórnendur tóku við hafi verið gerðar í fullu samráði við stjórn og lögmann félagsins.

Um mál Öldu Lóu segir að hún hafi með ótvíræðu samþykki stjórnar Eflingar unnið að kynningarverkefninu „Fólkið í Eflingu“ og að fyrir þá vinnu sína hafi hún að sjálfsögðu fengið greitt og að greiðslur til hennar hafi verið í fullkomnu samræmi við ákvörðun stjórnar um úthlutun fjármuna til verkefnisins.

„Stjórnendur Eflingar vísa fréttaflutningi Morgunblaðsins á bug. Þess er óskað að blaðið láti af því að gera starfsfólki félagsins upp tilhæfulaus klögumál og fara með dylgjur um starfsemi félagsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert