Græðgismóment til að halda partíinu gangandi

Ari Alexander Ergis Magnússon.
Ari Alexander Ergis Magnússon. Árni Sæberg

Leikstjórinn Ari Alexander Ergis Magnússon segist hafa tekið nokkra gúlsopa af lífinu sjálfur og fengið loftsteina í hausinn en hann forðast ekki að takast á við erfið mál í verkum sínum. Hann frumsýnir nú fyrstu leiknu mynd sína, Undir halastjörnu, sem segir frá líkfundarmálinu svokallaða.

Hugmyndin að myndinni kviknaði út frá raunverulegum atburðum sem gerðust í Litháen og á Íslandi árið 2004. Hinn 11. febrúar það ár fór kafari í höfnina í Neskaupstað til að kanna skemmdir á bryggjumannvirkjum en fann í staðinn illa leikið lík sem hafði verið þyngt með keðjum og kastað í sjóinn.

Lögreglan hóf ítarlega rannsókn og í ljós kom að líkið var af 27 ára Litháa sem kallaður er Mihkel í myndinni. Böndin bárust fljótt að smákrimmanum Bóbó sem var nýkominn til bæjarins frá Reykjavík og tveimur öðrum sem komið höfðu að heimsækja hann. Annar þeirra var Jóhann en hinn Igor, vinur Mihkels frá Litháen sem hafði búið nokkur ár á Íslandi og unnið fyrir Jóhann. Í myndinni er Litháen síðan skipt út fyrir Eistland til að hlífa fólki sem tengist sögunni. Með helstu hlutverk fara Pääru Oja, Kaspar Velberg, Atli Rafn Sigurðarson og Tómas Lemarquis.

Ari er eins og áður segir leikstjóri myndarinnar en hann er líka handritshöfundur og framleiðandi en aðrir framleiðendur eru Friðrik Þór Friðriksson, Kristinn Þórðarson og Leifur Dagfinnsson hjá Truenorth.

Hefur áhuga á samfélagsmálum

„Ég hef alltaf haft áhuga á samfélagsmálum. Ég held að við stöndum frammi fyrir alvarlegu vandamáli sem þessir fíknisjúkdómar eru,“ segir Ari og bætir við að við þurfum að sporna við þróuninni. „Við verðum að ná taki á þessu fólki sem er að flytja inn þessi efni, ekki burðardýrunum,“ segir Ari sem segist ekki hafa lausn á vandamálinu en hann takist á við þessa spurningu í myndinni.

„Ég hef kynnst ýmsu fólki í gegnum árin. Sannarlega þekki ég fólk sem samfélagið myndi segja vafasamt. En af hverju er það vafasamt og af hverju lendir það í þessum aðstæðum? Í þessu tiltekna máli er augljóst að þeir ætluðu sér ekki að sitja uppi með mann sem myndi verða fárveikur og deyja. Þetta var svona græðgismóment, til að halda partíinu gangandi,“ segir hann.

„Þessir menn, þeir eiga börn og foreldra, afa og ömmur, fólk sem þykir vænt um þá. Ég er ekki að réttlæta gerðir þeirra en ég er orðinn svo leiður á þessum endalausu sjónvarpssakamálaþáttum þar sem rannsóknarlögreglumaður sem á í vandræðum heima fyrir er í aðalhlutverki,“ segir hann og útskýrir að lögreglumaðurinn sé oftar en ekki með óvin sem sé vondur og „pottþétt geðveikur“. „Þetta er svo mikil klisja og er bara til að ýta undir fordóma í samfélaginu.“

Hann segir að hvort eð er sé búið að gera þetta svo vel þannig að hann þurfi ekki að leika það eftir og rifjar upp að hann hafi á sínum tíma haldið mikið upp á Derrick og Colombo.
Undir halastjörnu er vissulega hreinræktuð spennumynd en Ari vill forðast klisjurnar og hugsar frekar um spurninguna hvernig við getum mögulega reynt að öðlast betri skilning á samfélaginu.

Dýragarðsbörnin besta forvörnin

„Kvikmyndir eru svo flottur miðill sem er hægt að nota til að hjálpa samfélaginu og spyrja spurninga.“

Miðað við heimildarmyndabakgrunn Ara kemur ekki á óvart að fyrst hafi hann hugsað sér að gera heimildarmynd um þetta mál. „Hugmyndin var að kortleggja þennan fíkniefnaheim og hvernig þetta eigi sér stað,“ segir hann.

Hann rifjar upp að kvikmyndin Dýragarðsbörnin hafi haft mikil áhrif á hann sjálfan þegar hann var unglingur og sá hana 14 ára gamall með bekknum sínum í Danmörku.
„Ég held að þetta hafi verið einhver besta forvörn sem þú gætir mögulega lent í sem unglingur,“ segir hann.

Er ekki að prédika

Hann gerði heimildamynd um Breiðavík, Syndir feðranna, „sem var verkefni sem breytti landslögum“, en hann sat í stjórn Breiðavíkursamtakanna í mörg ár.

„Ég hef fengið mér nokkra gúlsopa af lífinu sjálfur og fengið loftsteina í hausinn,“ segir Ari, sem hræðist greinilega ekki erfiðu málin.

„Það væri svo auðvelt að sigla í gegnum lífið og láta eins og erfiðu málin væru ekki til staðar og helst að sitja bara og fordæma,“ segir hann og leggur áherslu á að hann sé ekki að prédika í Undir halastjörnu.

Flækjustig fíkniefnaheimsins

Ari segir að hann sé fyrst og fremst að benda á að þetta flækjustig fíkniefnaheimsins hafi bara stækkað. Hann vill sjá meira gert í baráttunni gegn fíkniefnum á Íslandi.

„Það er ástæða fyrir því að það fyrirfer sér ein manneskja á viku á Íslandi, þetta er svo mikið mein en það er engin lausn í sjónmáli. Það er bara verið að slökkva elda. Þetta er krabbamein í samfélaginu og er alltaf að vaxa. Ég þekki enga fjölskyldu sem er ekki með fjölskyldumeðlim sem er alkóhólisti, dópisti eða með geðræn vandamál,“ segir hann.

Draugur í sögunni

Það er saga á bak við nafnið á myndinni, Undir halastjörnu. „Það kemur sterkt í ljós snemma í myndinni en Mihkel finnur stein sem hann heldur að sé mögulega halastjarna. Í öllum fornsamfélögum, bæði hjá inkum og Egyptum, boðaði það að sjá halastjörnu ógæfu. Þessi halastjarna sem Mihkel finnur sem barn leiðir okkur áfram gegnum söguna. Það er draugur í myndinni og það er líka draugur í raunverulegu sögunni,“ segir hann og lýsir því hvernig allt hafi gengið á afturfótunum hjá gerendunum í málinu.

„Þeir taka allar þær röngu ákvarðanir sem hægt er að taka og maðurinn deyr. Þeir henda honum í höfnina í Neskaupstað og þá fer kafari þarna daginn eftir sem hafði aldrei farið þarna niður. Þeir bara áttu ekki að komast upp með þetta,“ segir Ari sem þrátt fyrir myrkt umfjöllunarefni trúir á hið góða.

„Ég trúi á hið góða í manninum, það er ekki spurning. Þetta er líka spurning um það að læra að fyrirgefa fólki sem hefur gert eitthvað á þinn hlut.“

Ari er nú kominn til Suður-Kóreu en Undir halastjörnu tekur þátt í World Cinema-hluta Busan, stærstu kvikmyndahátíðar Asíu, sem fram fer 4.-13. október og er þetta jafnframt heimsfrumsýning á myndinni. Tvær íslenskar myndir eru á hátíðinni en Lof mér að falla er sýnd í sama flokki. Myndin verður frumsýnd hérlendis 12. október.

Þetta er styttri útgáfa af viðtali sem birtist við Ara í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Tómas Lemarquis í hlutverki Bóbós.
Tómas Lemarquis í hlutverki Bóbós.
Atli Rafn í hlutverki Jóhanns og Kaspar Velberg í hlutverki ...
Atli Rafn í hlutverki Jóhanns og Kaspar Velberg í hlutverki Igors.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »