Örorka sé ekki auðveldari leiðin

Lág lágmarkslaun og hátt leiguverð hafa sín áhrif.
Lág lágmarkslaun og hátt leiguverð hafa sín áhrif. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Skortur á úrræðum getur verið ástæða þess að fleiri eru greindir með geðraskanir hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Þetta kom fram í þættinum Þingvellir á K100 í morgun, þar sem Páll Magnússon fékk til sín þau Agnesi Agnarsdóttur sálfræðing, Óttar Guðmundsson geðlækni og Valgerði Rúnarsdóttur, yfirlækni á Vogi, til þess að ræða mál ungra öryrkja á Íslandi.

Fyrir skömmu vakti Páll athygli Alþingis á því að 30% öryrkja á Íslandi væri ungt fólk innan við fertugt. Alvarlegasta telur hann þá staðreynd að hlutfallsleg fjölgun öryrkja sé mest meðal ungra karla, 20 til 30 ára, vegna geðraskana.

Agnes og Óttar voru sammála um að fólk með vægan vanda gæti verið líklegra til að fá geðröskunargreiningu en annars staðar vegna þess að skortur sé á annars konar úrræðum. „Læknar hafa ekki úrræði til að vísa fólki annað en á geðsvið. Það eru þung skref fyrir fólk með vægan vanda að ganga inn á geðsvið Landspítala,“ sagði Agnes. Þá voru viðmælendurnir þrír einnig allir sammála um að á Íslandi sé of auðvelt að fá ávísað lyfjum.

Tali um hlutfall vinnufærni en ekki örorku

Öryrkjum á Íslandi fjölgar um 1.200 til 1.800 á hverju ári og árið 2016 var nýgengi örorku í fyrsta skipti meira en náttúruleg fjölgun á vinnumarkaði. Valgerður hafði á orði að vinnumarkaðurinn væri ekki tilbúinn til þess að taka við fólki með skerta starfsgetu. Þess vegna væri örorka auðveldari leið og því þyrfti að breyta. Páll velti upp þeirri hugmynd að tekið yrði upp starfsgetumat hér á landi í stað örorkumats.

Það eru þung skref fyrir fólk með vægan vanda að ...
Það eru þung skref fyrir fólk með vægan vanda að ganga inn á geðsvið Landspítala. mbl,is//Hari

„Við ættum frekar að meta starfsgetu en örorku,“ samsinnti Agnes og vísaði til þess að í Svíþjóð tali fólk um að það sé 50% eða 70% vinnufært, sem hafi mun jákvæðari áhrif en að líta á sig sem t.d. 50% eða 70% öryrkja.

Páll velti því fyrir sér hvort samfélagslegar aðstæður á Íslandi gætu verið valdur að hærra hlutfalli fólks með geðraskanir. „Auðvitað hafa lífskjör, atvinnuástand og möguleikar í samfélaginu áhrif og þar stöndum við að baki Norðurlöndunum að einhverju leyti,“ sagði  Óttar og var Valgerður sammála. „Lágmarkslaun eru allt of lág og leiguverð allt of hátt. Þetta hefur allt áhrif á fólk í erfiðleikum.“

Agnes, Valgerður og Óttar voru öll sammála um að mikilvægast væri að koma fólki aftur í virkni, en að svo virðist vera að atvinnulífið á Íslandi sé ekki reiðubúið til þess að taka við fólki með skerta starfsgetu. Agnes sagði mikilvægt að fólk fái hjálp við að koma sér af stað og að það þekkist á Norðurlöndunum að ríkið borgi fyrirtækjum fyrir að taka við fólki með skerta starfsgetu.

„Þetta er líka fengur fyrir atvinnurekendur, því þarna er gífurlegur mannauður. Við megum ekki bara tala um þetta sem einhverja ölmusu fyrir öryrkja.“

mbl.is