8 mánuðir fyrir árás á fyrrverandi og börn

mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í átta mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundna, fyrir ólögmæta nauðung, líkamsárásir og stórfelldar ærumeiðingar gagnvart fyrrverandi eiginkonu sinni og börnum. 

Í fyrsta lagi fyrir að hafa ruðst inn á heimili fyrrverandi eiginkonunnar með ofbeldi, tekið hana hálstaki, ítrekað hrint henni, slegið, kýlt og sparkað í líkama hennar, þar á meðal andlit og búk. Og fyrir að hafa á sama tíma hrint dóttur sinni og slegið hana utan undir með þeim afleiðingum að sauma þurfti nokkur spor og hljóðhimnan sprakk. Einnig fyrir að hafa ítrekað smánað og móðgað þær báðar.

Þá er hann dæmdur fyrir líkamsárás gagnvart syni sínum, sem átti sér stað rúmu ári síðar. Í ákæru er maðurinn sagður hafa hrint syninum á sjónvarp, en þeir hafi svo fallið í gólfið þar sem sonurinn lenti með vinstri rasskinn á borvél, með þeim afleiðingum að hann fékk högg sem leidd upp í vinstri mjóbak og niður í læri. Fyrra atvikið átti sér stað í ágúst árið 2016 en það síðara í nóvember 2017.

Maðurinn játaði sök fyrir dómi, en fram kom að hann hefði verið í miklu ójafnvægi. Eftir árásina á soninn hafi hann svo hætt áfengisdrykkju. Þá kom einnig fram að hann og brotaþolar hefðu sæst og ættu nú gott samband.

Manninum var einnig gert að greiða fyrrverandi eiginkonu sinni og dóttur 500 þúsund krónur, hvorri um sig, í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert