Ákæruvaldið áfrýjar dómnum yfir Vali

Máli Vals Lýðssonar (t.h.) hefur verið áfrýjað til Landsréttar.
Máli Vals Lýðssonar (t.h.) hefur verið áfrýjað til Landsréttar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkissaksóknari hefur ákveðið að áfrýja dómi Héraðsdóms Suðurlands yfir Vali Lýðssyni til Landsréttar. Þetta staðfestir Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari í samtali við mbl.is, en Valur var dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir að verða bróður sínum, Ragnari Lýðssyni, að bana.

RÚV greinir frá því að áfrýjunarstefna hafi verið birt Vali Lýðssyni í dag, en Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari fór fram á það fyrir héraðsdómi á Selfossi að Valur yrði dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir að hafa orðið bróður sínum að bana 31. mars síðastliðinn.

Sagði Kolbrún fyrir dómi að Vali hefði mátt vera það fulljóst að árás hans á Ragnar gæti endað með andláti hans.

Niðurstaða Héraðsdóms Suðurlands hins vegar var á þá leið að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna að „fyrir ákærða hafi vakað að ráða bróður sínum bana“.

Þeirri niðurstöðu dómstólsins hefur nú sem áður segir verið áfrýjað til Landsréttar.

mbl.is