Hlutfall örorku áhyggjuefni

Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK.
Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK.

„Ég get tekið undir það að þetta er mikið áhyggjuefni. Við höfum líka bent á þetta hjá VIRK, að ungum einstaklingum sem koma til okkar í starfsendurhæfingu hefur fjölgað svakalega,“ segir Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK, í samtali við Morgunblaðið.

Um 30% öryrkja á Íslandi með 75% örorkumat eða meira eru fólk innan fertugs og hlutfallsleg fjölgun öryrkja er mest meðal ungra karla, á aldrinum 20 til 30 ára, vegna geðraskana. Þetta kom fram í ræðu Páls Magnússonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi fyrir tveimur vikum. Vakti hann athygli á því að hlutfall ungra öryrkja á Íslandi væri um tvöfalt hærra en annars staðar á Norðurlöndunum. Þar kom líka fram að nýgengi öryrkja á Íslandi væri 1.200-1.800 á ári og að árið 2016 hefði nýgengi örorku í fyrsta skipti verið meira en náttúruleg fjölgun á vinnumarkaði.

Páll telur að það sé eitthvað í íslenska kerfinu sem hvetji frekar til skráningar örorku heldur en gerist í öðrum löndum og að það þurfi að laga.

Agnes Agnarsdóttir sálfræðingur, Óttar Guðmundsson geðlæknir og Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, ræddu stöðu ungra öryrkja á Íslandi við Pál í útvarpsþættinum Þingvöllum á K100 í gærmorgun.

Í umræðunni á Þingvöllum í gær velti Páll upp þeirri hugmynd að tekið yrði upp starfsgetumat hér á landi í stað örorkumats. Agnes tók undir þá hugmynd og vísaði til þess að í Svíþjóð talaði fólk um að það væri með skerta starfsgetu og það hefði mun jákvæðari áhrif en að það liti á sig sem öryrkja.

Þá velti Páll því fyrir sér hvort samfélagsaðstæður á Íslandi gætu verið orsök hærra hlutfalls fólks með geðraskanir. „Auðvitað hafa lífskjör, atvinnuástand og möguleikar í samfélaginu áhrif og þar stöndum við að baki Norðurlöndunum að einhverju leyti,“ sagði Óttar.

Valgerður tók undir það og nefndi að lágmarkslaun væru of lág og leiguverð of hátt. „Þetta hefur allt áhrif á fólk í erfiðleikum,“ bætti hún við.

Vigdís segir að meiri meðvitund um þjónustu VIRK skýri að einhverju leyti þessa miklu fjölgun en í öllu falli sé hlutfall örorku mjög hátt hér á landi.

Vandamálið er margþætt en efla þarf úrræði í geðheilbrigðisþjónustu og heilsugæslu svo hægt sé að grípa fyrr inn í.

„Það er mjög mikilvægt í umfjöllun um þetta að átta sig á því að málið er mjög flókið og hefur margar hliðar. Það þýðir ekki að kenna einhverjum einum um. Það er okkar allra að leysa þetta mál og það bera allir ábyrgð,“ segir Vigdís einnig.

Sérfræðingar og samráðshópur Alþingis leggja til upptöku starfsgetumats í stað örorkumats, að því er fram kemur í umfjöllun um aukna örorku fólks.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert