Ákveðnar fullyrðingar um Ripped bannaðar

Fullyrðingar um ágæti innihaldsefna Ripped-orkudrykksins eru ósannaðar, samkvæmt ákvörðun Neytendastofu.
Fullyrðingar um ágæti innihaldsefna Ripped-orkudrykksins eru ósannaðar, samkvæmt ákvörðun Neytendastofu. Skjáskot/Instagram-reikningur Ripped-orkudrykksins

Neytendastofa hefur bannað fyrirtækinu Fitness Sport ehf., sem markaðssetur orkudrykkinn Ripped, að nota fullyrðingar um virkni innihaldsefna orkudrykksins í auglýsingaefni sínu á samfélagsmiðlum, þar sem fullyrðingarnar þykja ósannaðar.

Hið sama á við um fullyrðinguna „Ripped orkudrykkurinn orðinn söluhæsti drykkurinn á landinu“ sem fyrirtækið hefur notað í kynningarefni sínu. 

Neytendastofa sendi Fitness Sport bréf í lok maí þar sem farið var fram á að fyrirtækið færði sönnur á fjölda fullyrðinga um virkni innihaldsefna orkudrykksins og það að Ripped væri orðinn söluhæsti orkudrykkur landsins, en Neytendastofa hafði þá fengið ábendingar um auglýsingarnar.

Fitness Sport brást við bréfi Neytendastofu í byrjun júní og í svari fyrirtækisins sagði að það væri svo sem viðbúið að samkeppnisaðilar félagsins, sem hafi drottnað yfir markaðinum, myndu gera hvað þeir gætu til að leggja stein í götu Fitness Sport þar sem innkoma Ripped-orkudrykksins á markaðinn hafi verið mikið högg fyrir markaðshlutdeild þeirra á sambærilegum vörum.

Auglýsingar sem þessar eru enn aðgengilegar á samfélagsmiðlum Fitness Sport.
Auglýsingar sem þessar eru enn aðgengilegar á samfélagsmiðlum Fitness Sport. Skjáskot/Instagram-reikningur Ripped-orkudrykksins

Fitness Sport sagði sömuleiðis að fyrirtækið væri hætt að setja fullyrðingar um innihaldsefni Ripped í kynningarefni sitt, eftir að ábendingar bárust frá Matvælastofnun um að leyfi þyrfti til að nota slíkar fullyrðingar. Einnig sagði fyrirtækið að fullyrðingin um að Ripped væri mest seldi orkudrykkur landsins væri fengin úr sölutölum helstu stórmarkaðskeðja, sem samanlagt hefðu um 95% markaðshlutdeild í sölu orkudrykkja.

Í öðru bréfi sínu til Fitness Sport sagði Neytendastofa hins vegar að enn væri hægt að nálgast auglýsingar sem varði virkni Ripped-orkudrykksins, bæði á Facebook og Instagram. Aftur var ítrekað fyrir fyrirtækinu að bregðast við og færa sönnur á fullyrðingarnar innan tveggja vikna, en Fitness Sport brást ekki við því.

Neytendastofa tók því ákvörðun í lok september, um að fyrirtækið hefði með birtingu fullyrðinga um virkni innihaldsefna og vinsældir orkudrykksins brotið gegn ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og beinir þeim fyrirmælum til fyrirtækisins fjarlægja slíkar auglýsingar af samfélagsmiðlum innan tveggja vikna frá ákvörðuninni.

Bregðist fyrirtækið ekki við því má búast við að tekin verði ákvörðun um sektir á grundvelli laganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert