Ætla að opna Höfða mathöll í desember

Ráðgert er að mathöllin muni opna að Bíldshöfða 9 í …
Ráðgert er að mathöllin muni opna að Bíldshöfða 9 í desember, í rýminu hægra megin við aðalinnganginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eigendur mexíkóska veitingastaðarins Culiacan á Suðurlandsbraut, þær Steingerður Þorgilsdóttir og Sólveig Guðmundsdóttir, höfðu haft augastað á því að opna nýjan veitingastað á Höfða um nokkurt skeið. Þær fengu síðan leigt húsnæði, en þótti það heldur stórt til að hýsa einungis einn stað. Þannig varð hugmyndin að Höfða mathöll til.

Steingerður og Sólveig leita nú að rekstraraðilum til viðbótar til þess að slást til liðs við sig og gera mathöllina að Bíldshöfða 9 að veruleika, en húsnæðið sem um ræðir hýsti áður Bílanaust. Þær stefna á að Höfði mathöll opni í desember.

Í samtali við mbl.is segir Steingerður að það hafi verið heillandi að fara í veitingarekstur á Ártúnshöfða, þar sem mikil umferð sé þar í dag og að á næstu árum muni einnig verða mikil uppbygging á svæðinu við Elliðaárvog og á Ártúnshöfða, þar sem iðnaðarsvæði mun umbreytast í fjölmennt íbúahverfi.

„Við ætlum að fara þarna inn með Culiacan og síðan vantar okkur sjö aðra aðila með okkur,“ segir Steingerður. Hún segir að þær séu opnar fyrir öllu og vilji hafa fjölbreytta staði í húsnæðinu, en rýmin sem eru í boði eru á bilinu 8-30 fermetrar.

Steingerður og Sólveig horfa til mathallanna á Hlemmi og Granda sem fyrirmynda, en þær hafa notið nokkurra vinsælda. Verslunarmiðstöðin Kringlan hyggst einnig opna mathöll á veitingasvæði sínu á næstunni, eins og greint var frá í gær. 

Steingerður Þorgilsdóttir og Sólveig Guðmundsdóttir eru eigendur Culiacan og stefna …
Steingerður Þorgilsdóttir og Sólveig Guðmundsdóttir eru eigendur Culiacan og stefna nú að því að opna mathöll á Höfða í desember. Ljósmynd/Aðsend

„Við viljum hafa breidd í þessu, þannig að þú eigir erindi inn í mathöllina að morgni og getir gripið með þér kaffi eða djús og eigir svo líka erindi inn í mathöllina síðdegis, svo þetta sé ekki bara að þjóna matartímum í hádeginu og á kvöldin.“

Þrír dagar eru síðan þær Steingerður og Sólveig auglýstu eftir áhugasömum rekstraraðilum og þegar hafa margir haft samband.

„Það eiginlega bara rignir inn hugmyndum, sem er mjög spennandi. Það eru margar nýjar hugmyndir og skemmtilegar sem hafa komið inn og við ætlum bara að fara yfir þetta í heild og sjá hvað vinnur best saman,“ segir Steingerður og bætir við að sennilega verði ekki tekin ákvörðun um hvaða rekstraraðilar verði í mathöllinni fyrr en í fyrsta lagi í næstu viku.

Síðan verður unnið hratt, enda stefnt að opnun í desember, sem áður segir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert