„Elítan vill ekki fara að leikreglunum“

Þú getur ekki verið fjármálaráðherra og falið þig fyrir eftirlitsyfirvöldum landsins,“ sagði Eva Joly, fyrrverandi ráðgjafi sérstaks saksóknara, í Kveik á RÚV í kvöld en skattaundanskot voru til umfjöllunar í þættinum.

„Elítan vill ekki fara að leikreglunum,“ bætti Joly við. Í Panamaskjölunum var afhjúpað að Íslendingar ættu líklega heimsmet í eign aflandsfélaga; þar á meðal voru þrír þáverandi ráðherrar.

Það kom Bryndísi Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra á óvart hve umsvifamiklir Íslendingar voru í Panamaskjölunum. Hún segir að það sé meðal annars ástæðan fyrir því að mikilvægt hafi verið að kaupa gögnin.

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri.
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri. mbl.is/Rósa Braga

Bryndís segir að reynslan sýni að sjaldnast séu það gjaldendurnir sem búi til áætlun um undanskot; til þess séu sérfræðingar. Hún telur að það eigi að skoða hvort hægt verði að styrkja almennt ákvæði í skattalögum þess efnis að fólk verði sótt til saka fyrir slíkar ráðleggingar.

Peningar úr aflandsfélögum aftur til landsins

Einnig var fjallað um það að einhverjir þeirra sem hafa sætt sakamálarannsókn, og jafnvel hlotið dóma, komu með peninga úr aflandsfélögum aftur til landsins í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans á árunum 2012 til 2015.

Þeir sem fluttu fé til landsins með þeim hætti fengu 20% afslátt af krónum, gegn því að festa féð í verðbréfum, fasteignum, fyrirtækjum eða öðrum fjárfestingakostum.

Seðlabankinn hefur birt upplýsingar um hvaðan féð kom en ekki hverjir eru eigendur þess. Bryndís skattrannsóknarstjóri hefur fengið upplýsingar frá Seðlabankanum um hverjir komu með peninga til landsins en vill ekki tjá sig um það og segir málið í vinnslu.

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mbl.is/Golli

Áður hefur verið greint frá því að til að mynda Ólafur Ólafsson, athafnamaður og fyrrverandi hluthafi í Kaupþingi, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Bakkavararbræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir hafi komið með peninga til landsins í gegnum áðurnefnda leið.

Joly telur að í dóma fyrir efnahagsbrot ætti að setja ákvæði um að banna viðkomandi að stunda viðskipti í einhvern tíma. „Hér í Frakklandi er til að mynda hægt að setja menn í allt að fimmtán ára bann frá viðskiptum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert