„Horfir upp undir iljarnar“

Jón Birgir Gunnarsson, íbúi við Hraunteig í Reykjavík, er ósáttur við framkvæmdir á lóð við hlið sinnar. Verið er að byggja einbýlishús þar en lóðin var hækkuð um meira en metra við framkvæmdirnar. Jón segir breytingarnar hafa umtalsverð áhrif á sína eign. Þar sem kjallaraíbúðin í húsinu sé enn meira niðurgrafin en hún var áður. 

„Maður horfir upp undir iljarnar á nágrannanum í staðinn fyrir að horfa í augun á honum þegar maður er að spjalla við hann,“ segir Jón sem gagnrýnir vinnubrögð borgarinnar í málinu. Sér í lagi hafi verið erfitt að ná samtali um málið og að í deiliskipulagi hafi þessi hækkun á lóðinni ekki verið kynnt.

Yfirbyggðar svalir með skorsteini eru við nýja húsið og ná þær nær götunni en önnur hús. Þetta hafi í för með sér skuggamyndun í garðinum hjá Jóni. Íbúar í öðrum aðliggjandi lóðum hafa skrifað undir mótmæli við hækkun lóðarinnar. 

Sjöfn Sigurgísladóttir, sem er byggingaraðili og eigandi að nýja húsinu, segir húsið þó standa í sömu hæð og gatan sem það standi við eins og sé alvanalegt og bendir jafnframt á að meira byggingarmagn hafi í raun verið leyfilegt á reitnum. „Við hefðum getað haft húsið hærra og með kjallara,“ sagði Sjöfn í samtali við mbl.is. Þó hefði verið ákveðið að hafa ekki kjallara og því hafi lóðin verið hækkuð og jöfnuð við götuhæð. Skipulagsyfirvöld í Reykjavík höfðu áður samþykkt hús fyrri eiganda lóðarinnar sem var 1,6 metrum hærra en núverandi bygging er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert