Deilt um 300 milljónir sem fóru til skattsins

Hreiðar Már Sig­urðsson og Guðný Arna Sveinsdóttir ásamt verjendum sínum …
Hreiðar Már Sig­urðsson og Guðný Arna Sveinsdóttir ásamt verjendum sínum í héraðsdómi í dag. mbl.is/Hari

Við aðalmeðferð í innherja- og umboðssvikamáli sem tengist félaginu Hreiðar Már Sigurðsson ehf. sem fram hefur farið í dag var meðal annars deilt um það hvernig 574 milljóna króna lán var samþykkt. Var það veitt fyrrnefndu félagi í tengslum við að Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, nýtti kaupréttarákvæði í samningi sínum við Kaupþing.

Kauprétturinn var þó ekki upp á nema 246 milljónir, en verjandi Hreiðars Más hefur vísað til þess að afgangurinn, upp á rúmlega 320 milljónir, hafi verið til að mæta skattaskuldbindingum sem komu til í tengslum við nýtingu kaupréttarins. Saksóknari virðist þó vilja meina að það hafi ekki verið hugmyndin með lánveitingunni upphaflega, þó að upphæðin hafi verið greidd til skattsins.

Nokkur vitni komu fyrir dóminn í dag, meðal annars fyrrverandi yfirlögfræðingur bankans, fyrrverandi varaformaður stjórnarinnar og fyrrverandi stjórnarformaður. Sögðu þeir allir að stjórn hefði árið 2005 samþykkt að lán væru veitt fyrir kaupum stjórnenda sem hefðu kauprétt. Þá væri einnig veitt aukalega lán vegna skattaskuldbindinga sem kæmu til þegar bréf væru áframseld í einkahlutafélög í eigu viðkomandi starfsmanna.

Í þessu tilfelli sem deilt er um virðist lánið þó ekki hafa nægt að fullu til að mæta þessari skattaskuld og hefur Hreiðar meðal annars notað það í vörn sinni á þann hátt að það bendi til þess að öll upphæðin hafi farið til að greiða skattaskuldbindinguna, en ekkert hafi farið til hans sjálfs.

Finnur Þór Vilhjálmsson, saksóknari í málinu.
Finnur Þór Vilhjálmsson, saksóknari í málinu. mbl.is/Hari

Þá hefur vörnin meðal annars bent á að formaður starfskjaranefndar stjórnar bankans, Ásgeir Thoroddsen, hafi skrifað undir lánið til handa Hreiðari Má og sýni það að um ákvörðun stjórnar hafi verið að ræða að veita lánið. Í málinu er Hreiðar hins vegar ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa látið bankann lána sér upphæðina.

Ásgeir var meðal þeirra sem mættu og báru vitni í dómsal í dag. Hann sagðist hins vegar ekkert muna eftir að hafa undirritað lánið til handa félaginu Hreiðari Má Sigurðssyni ehf., þó að hann hafi kannast við undirskrift sína. Sagði hann klárt að stjórnin hefði samþykkt að bankinn fjármagnaði bæði kaupréttina og skattagreiðslurnar, en að hann hafi ekki komið nálægt því.

Fyrrnefndir stjórnarmenn og yfirlögfræðingur sögðu hins vegar að það væri óeðlilegt ef Ásgeir hefði ekki skrifað undir lánið.

Skýrslutökum lauk í málinu í dag og fer málflutningur saksóknara og verjenda fram á morgun. Hreiðar Már Sigurðsson hefur þegar hlotið dóma sem fylla hámark refsiramma fyrir brot af þessu tagi, eða sex ár, til viðbótar við að hann fékk eins árs dóm í Marple-málinu, en með því var nýtt heimild í lögum til að bæta við allt að 50% refsingu ofan á refsihámark ef um er að ræða ítrekuð brot. Hefur hann því samtals hlotið 7 ára dóm.

Guðný Arna Sveinsdóttir, sem einnig er ákærð í málinu, fyrir hlutdeild í umboðssvikum, hefur hins vegar ekki hlotið dóm, en hún var þó einnig ákærð í Marple-málinu en var sýknuð í héraðsdómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert