Aðför að mannorði fjármálastjórans

Gunnar Smári Egilsson. Lára segir skrif Gunnars full af „tilhæfulausum …
Gunnar Smári Egilsson. Lára segir skrif Gunnars full af „tilhæfulausum ásökunum og ávirðingum sem eru til þess eins gerðar að koma af stað óhróðri“ um Kristjönu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ummæli Gunnars Smára Egilssonar um Kristjönu Valgeirsdóttur, fjármálastjóra Eflingar, eru ærumeiðandi og ásakanir hans tilhæfulausar og ekki til annars gerðar en að sverta mannorð Kristjönu. Þetta segir Lára Júlíusdóttir, lögmaður Kristjönu, í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í dag, en fjölmiðlar hafa í vikunni fjallað um ólgu meðal starfsmanna á skrifstofu Eflingar.

Í skrifum Gunnars Smára á Eyjunni, segir hann Kristjönu sverta nafn Öldu Lóu Leifsdóttur, eiginkonu sinnar, í von um að koma höggi á yfirmenn sína. Lára segir Kristjönu „kannast ekki við að hafa tjáð sig um viðskipti félagsins við einstaka aðila, hvorki Öldu Lóu né annarra [sic] og vísar til þess að við afgreiðslu þess máls innan félagsins hafi verið farið eftir þeim verklagsreglum sem viðhafðar hafa verið á skrifstofu Eflingar“.

Í frétt Morgunblaðsins um málið sagði að Kristjana hefði neitaði að greiða háan reikning Öldu Lóu, nema hann væri fyrst samþykkt­ur af stjórn Efl­ing­ar.

Lára segir nafn Öldu Lóu Leifsdóttur hvergi koma fram á reikningum eða gögnum sem um ræðir og Kristjana hafi hvorki hitt hana né þekki. „Ásökunin telst því algerlega tilhæfulaus enda vandséð hvaða ástæðu umbjóðandi minn hefur til að sverta nafn persónu sem hvergi kemur fram í viðkomandi skjölum og umbjóðandi minn þekkir ekki og sér fyrst nafnið í umfjöllun Gunnars Smára Egilssonar,“ segir í yfirlýsingunni.  

Illskiljanlegt sé enn fremur hvernig Gunnar Smári komist að þeirri niðurstöðu að Kristjana sé „augljóslega ómerkileg manneskja og illgörn“.  Hún kannist ekki við Gunnar Smára nema úr fjölmiðlum, né minnist hún þess að hafa hitt hann eða átt við hann samskipti.

Framkvæmdi ákvarðanir formanns og stjórnar

Ekki sé heldur ljóst hvaðan Gunnar Smári hafi þær upplýsingar að Kristjana hafi verið „rándýr á fóðrum“ innan Eflingar. Kristjana kannist ekki við annað en að hafa unnið félaginu af heilindum og fyrir það hafi hún þegið laun sem hún ætli að séu sambærileg launum annarra í svipaðri stöðu.  

Hvað umfjöllun Gunnar Smára um tilfærslur Kristjönu á fjármunum félagsins til Gamma varðar, segir í yfirlýsingunni að „allar meiri háttar fjárfestingar Eflingar“ eigi sér stoð í fjárfestingarstefnu félagsins sem byggð sé á lögum þess og samþykktar séu í hvert og eitt skipti af stjórn félagsins.

„Ábyrgð umbjóðanda míns á einstökum fjármálagerningum felst í því að framkvæma ákvarðanir sem stjórnin eða formenn Eflingar hafa tekið með heimild stjórnar og innan ramma ávöxtunarstefnu félagsins.“

Hvað varði ásakanir um að Kristjana hafi beitt sér fyrir því að beina viðskiptum Eflingar að veitingarekstri sambýlismanns síns, Marks Brink, sé hins vegar nauðsynlegt að taka fram að viðskipti eldri félaga og síðan Eflingar við hann hafi hafist í stjórnartíð Guðmundar J. Guðmundssonar og síðan flust yfir til Halldórs Björnssonar og það hafi verið löngu fyrir kynni þeirra Kristjönu og Marks.

„Umbjóðandi minn tengdist aldrei pöntunum veitinga vegna funda. Slíkt var á hendi formanna félagsins eða skrifstofustjóra í umboði þeirra. Rétt er að nefna að viðskipti Eflingar á veitingum og fundarsölum beindust að mun fleiri aðilum í gegnum árin. Engin forsenda er því fyrir þessum ásökunum og auðvelt mál að sanna það með beinum vitnum um málið,“ segir í yfirlýsingunni.

Nægt tilefni til meiðyrðamáls

Skrif Gunnars séu full af „tilhæfulausum ásökunum og ávirðingum sem eru til þess eins gerðar að koma af stað óhróðri“ um Kristjönu og tilgangurinn sýnilega ekki annar en að sverta mannorð hennar og leitast við að draga úr trúverðugleika hennar.

Það hljóti að teljast ómaklegt að ráðast með þessum hætti gegn starfsmanni í ábyrgðarstarfi á skrifstofu stéttarfélags og lítillækka „með tilhæfulausum ásökunum“ starfsmann sem nú sé óvinnufær sökum veikinda. Myndbirting af Kristjönu sé sömuleiðis ámælisverð og hluti af árás á persónu hennar sem ekki sé hægt að sitja undir.

Segir Lára Kristjönu hafa kosið að tjá sig ekki opinberlega um veikindi sín né störf sín hjá Eflingu að undanförnu, en hún vilji þó taka fram að frétt Morgunblaðsins um helgina sé ekki frá sér komin. Hún ræði „ekki einstök störf eða verkefni á skrifstofu Eflingar á opinberum vettvangi,“ enda telji hún sig bundna trúnaði.

„Öllum ásökunum, ávirðingum og alhæfingum svo sem þeirri að fjármálastjóri Eflingar „beri ábyrgð á vondri stöðu verkalýðshreyfingarinnar og hafi valdið verkafólki fjárhagslegu tjóni“" er hins vísað á bug, enda engin rök eða sannanir fyrir því að nokkur fótur sé fyrir þeim.

Umfjöllun Gunnars Smára sé hins vegar alvarleg aðför að mannorði Kristjönu og meira en nægt tilefni til meiðyrðamáls og kröfu miskabóta á hendur honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert