Allir fúsir til að leggja sitt af mörkum

Guðrún Magnúsdóttir.
Guðrún Magnúsdóttir.

Þetta er risaverkefni sem við erum virkilega montin af, því það er allt unnið í sjálfboðavinnu. Hönnun skilta, textagerð, þýðing, öll keyrsla og uppsetning skilta, en langmest var handmokað, til að gera sem minnst jarðrask. Enginn tók krónu fyrir vinnu sína, en þannig er stemningin hér í sveitinni gagnvart hálendinu, alveg sama hvað stendur til, hvort sem þarf að byggja gistihús, hesthús, salerni eða göngubrú,“ segir Guðrún Magnúsdóttir, bóndi í Bræðratungu í Biskupstungum, en heimamenn þar í sveit í samstarfi við Ferða- og samgöngunefnd Landsambands hestamannafélaga, kortlögðu og merktu reiðleiðir á Biskupstungnaafrétti í sumar.

„Þetta á upphaf sitt í því að við Loftur Jónasson frændi minn, sem hefur verið skálavörður árum saman á afréttinum og gjörþekkir allar aðstæður þar innfrá, við fórum í að skoða ástand reiðleiða vegna vinnu við nýtt aðalskipulag Bláskógabyggðar og komumst að því að sums staðar þurfti að breyta reiðleiðum. Eðlilega gerði Landsamband hestamanna athugasemd við sumar af tillögum okkar því þeir höfðu áhyggjur af því að við værum að loka sumum reiðleiðum. En við hittumst á fundi og allir voru að lokum sammála um hvernig þetta ætti að vera, það þyrfti að koma betri upplýsingum til fólks og merkja reiðleiðir betur svo fólk átti sig á hvernig best er að ferðast þarna um.“

Guðrún segir að Landssamband hestamanna hafi kostað framleiðslu skiltanna, tæpar 2 milljónir, en það var eini útlagði kostnaðurinn, því öll önnur vinna var unnin af heimamönnum og Ferða- og samgöngunefnd LH í sjálfboðavinnu. „Fjögur stór upplýsingaskilti voru sett upp í Árbúðum, við Fremstaver, í Svartárbotnum og inn í Sóleyjardal. Á þeim skiltum eru kort og texti um staðinn, upplýsingar og öryggisatriði. Öðrum megin á íslensku en hinum megin á ensku, svo þetta nýtist öllum vel sem fara um hálendið. Auk þess voru gerðir fimmtán vegprestar, minni skilti með 42 vegvísum samtals. Sá sem er syðst er við Gullfoss en svo rekja prestarnir sig upp allan afrétt alveg inn að Hveravöllum. Þetta er reiðveganet, einskonar stikur eða vörður sem vísa í ýmsar áttir. Aðalsnilldin er að á hverjum staur er númer sem eru tengd neyðarlínunni í gegnum Landssamband hestamanna. Hver einasti staur er því hnitsettur í kortasjá LH og þannig beintengdur við neyðarlínuna. Ef fólk villist, slasast eða eitthvað kemur fyrir, hvort sem viðkomandi er gangandi, ríðandi, hjólandi eða keyrandi, er hægt að staðsetja það í gegnum þetta númer.“

Mörg hundruð heyrúllur á ári

Guðrún er fædd og uppalin á Kjóastöðum í mikilli nálægð við hálendið og lætur sig það miklu varða og hefur sjálf unnið heilmikið við uppbyggingu þar og uppgræðslu.

„Landgræðslufélag Biskupstungna var formlega stofnað fyrir 24 árum en samstarfið við Landgræðslu ríkisins hefur staðið allt frá því árið 1970, og verið afar farsælt. Bændur og aðrir hér búsettir hafa í þessa áratugi lagt gríðarlega mikið af mörkum, til dæmis farið með mörg hundruð heyrúllur inneftir á hverju ári og tætt þær niður í sárin á rofabörðum til að loka þeim, eða dreift þeim yfir auðnir. Í þetta fer mikill tími og vinna, en þetta er aldrei kvöð, fólk gerir þetta með ánægju. Þó fyrirhöfn sé og kostnaður. Sama er að segja um girðingarvinnu og áburðardreifingu, allt vinnur fólk að mestu leyti í sjálfboðavinnu, fúslega. Áhuginn fyrir hálendinu er gríðarlegur í sveitarfélaginu, enda er þetta sameining fyrir okkur sem hér búum og hluti af sjálfsmynd fólks. Við erum stolt af hálendinu okkar og förum gjarnan þangað með gesti til að sýna þeim fegurðina sem þar ríkir. Hálendið hefur búið til dýrmæta menningu í sveitunum, fjallferðir, smalamennsku, réttir, sagnir, kvæði og ljóð.“

Vilja skattgreiðendur borga?

Guðrún segir að ef áform um miðhálendisþjóðgarð og þjóðgarðastofnun verði að veruleika muni allt skipulags- og framkvæmdavald flytjast úr höndum heimamanna.

„Við heimamenn munum þá ekki hafa neitt um það segja hvað verður gert þarna innfrá, og þá mun ríkið væntanlega taka yfir öll þessi verkefni sem við höfum verið að vinna í þessa áratugi. Þá er nú eins gott að landsmenn átti sig á því að þá leggst allur slíkur kostnaður á skattgreiðendur. Við eigum erfitt með að skilja hvers vegna ríkið vill taka af okkur þessi verkefni sem við vinnum svo mörg í sjálfboðavinnu. Hvað heldur fólk að til dæmis þessi skiltavinna hefði kostað í höndum ríkisins? Eru landsmenn tilbúnir til að borga fyrir það dýrum dómum?“ segir Guðrún og bætir við að reistar hafi verið gestastofur í tengslum við Vatnajökulsþjóðgarð, en þær hafi farið tugi milljóna framúr áætluðum byggingarkostnaði. „Við viljum ekki skipta á hálendinu okkar fyrir gestastofur. Það var lítil gestastofa við Gullfoss, Sigríðarstofa, sem ríkið rak, en henni var lokað af því ríkið treysti sér ekki til að reka hana.“

Mun bitna á ferðafólki

Nýlega var haldinn fundur í Árnesi í Gnúpverjahreppi með heimamönnum og þverpólitískri nefnd um stofnun miðhálendisþjóðgarðs.

„Þar var húsfyllir og mikil andstaða kom þar skýrt fram, afgerandi afstaða heimamanna. Ég spurði hvort sveitarfélögin fengju einhverju um það ráðið hvort þau færu inn í þessa framkvæmd þjóðgarðs, hvort alfarið yrði tekið af okkur þetta vald eða hvort við gætum sagt nei. Ég spurði hvort yrði tekið mark á okkur, skoðun sveitarfélaga. Ég fékk þau svör frá Steingrími J. Sigfússyni að auðvitað fengjum við að ráða þessu. En ég er ekki viss um að nokkur maður trúi því, en þetta sagði hann og allir voru vitni að því. En þegar ég spurði hver kæmi til með að ráða hvernig þjóðgarðurinn yrði flokkaður, þá svaraði hann: „Þið munuð gera það,“ en bætti svo við: „Til að byrja með.“ Við getum ekki treyst slíkum svörum,“ segir Guðrún og bætir við að hún hafi heyrt í fólki í sveitunum í kring og líka fyrir norðan, og það séu allir á móti þjóðgarðshugmyndinni, eins og þetta er sett upp núna. „Þetta mun bitna á þeim sem ferðast um hálendið, því það verður hnignun, það er klárt mál, á allri aðstöðu og þjónustu. Við viljum fá að halda áfram að vinna í sátt við ferðaþjónustuaðila, útivistarsamtök, landgræðsluna og fleiri við að halda þessu svæði og þjónustunni þar eins góðri og hún er. Við viljum hafa eitthvað um það að segja hvernig við byggjum okkar nærsamfélag,“ segir Guðrún og bætir við að hún hafi kynnt sér Vatnajökulsþjóðgarð og komið hafi fram að þar sé víða pottur brotinn í rekstri og innviðauppbyggingu. „Það virðist ekki vera til fjármagn til alls sem þarf að gera í þeim þjóðgarði. Okkur heimamönnum hefur tekist að reisa með litlum tilkostnaði þrjá veglega fjallaskála og hesthús á okkar afrétti, í Árbúðum, Fremstaveri og Gíslaskála, sem öll eru með vatnssalernum. Mikið var unnið í sjálboðavinnu og einstaklingar gáfu að hluta efniskostnaðinn. Öllu því fólki sem fer um afréttinn stendur til boða að nýta þessa góðu aðstöðu og þjónustu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert